Konungurinn bauð upp á ætiþistla og regnbogasilung

Halla ávarpaði konungshjónin og aðra gesti í kvöldverðinum.
Halla ávarpaði konungshjónin og aðra gesti í kvöldverðinum. AFP/Jonathan Nackstrand

Fyrsta degi ríkisheimsóknar Höllu Tómasdóttur til Svíþjóðar lauk á hátíðarkvöldverði í sænsku konungshöllinni í kvöld þar sem Halla ávarpaði konungshjónin og þakkaði þeim fyrir boðið til landsins. 

Matseðillinn í konungshöllinni var ekki af verri gerðinni en boðið var upp á fjögurra rétta kvöldrétt. Í forrétt var boðið upp á soðinn ætisþistil og sveifgras með osti og timían-vínegrettu. Næst á boðstólum var léttreyktur regnbogasilungur með brenninetlum, fennel fræjum og vorsprotunum. 

Aðalrétturinn var kjúklingur með grilluðu kjúklingasoði, steiktum hvítlauk og rósmarín. Í eftirrétt var svo boðið upp á rabarbara með vorblómum, brúnuðu smjörkökudeigi, kardimommum og sýrðu rjóma sorbet. 

Þakkaði fyrir að hafa komið sögum Íslendinga á framfæri

Halla fór um víðan völl í ávarpi sínu og ræddi meðal annars um þá sænsku sagnahöfunda sem hafa snert Íslendinga í gegnum tíðina. Nefndi hún sérstaklega Ebbu Lindquist, Selmu Lagerlöf og Astrid Lindgren. Sagði hún að Íslendingar væru stoltir af framlagi Svía til heimsmenningarinnar. 

„Þið hafið einnig átt þátt í að koma sögum okkar Íslendinga á framfæri um heim allan. Mesti heiður sem hlotnast hefur íslenskum rithöfundi á síðari öldum var þegar Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaunin hér í Stokkhólmi árið 1955 fyrir að hafa „endurnýjað íslenska sagnalist“ með skáldverkum sínum. Verðlaunin voru mikilvæg fyrir mótun sjálfsmyndar okkar unga lýðveldis á síðustu öld,“ sagði Halla meðal annars í ávarpi sínu. 

Þá minntist hún einnig á alla þá Íslendinga sem hafa sótt sér menntun í Svíþjóð og þá góðu eiginleika Svía sem þeir hafa tekið með sér að loknu námi. 

„Það er varla til sú heilbrigðisstofnun á Íslandi sem ekki nýtur starfa læknis sem sótt hefur sérmenntun til Svíþjóðar. Mörg þeirra hafa búið um áratugaskeið með fjölskyldum sínum hér í landi að loknu námi, þau hafa tileinkað sér ýmsa góða eiginleika ykkar Svía, svo sem samtakamátt og skipulagshæfni, og að endingu flutt þá með sér heim.“

„Fordæmisgildi hins mjúka valds Norðurlanda aldrei verið meira“

Halla ræddi einnig um gildi norrænnar velferðar sem hún sagði að Íslendingar hefðu byggt samfélagið á í kjölfar stofnunar lýðveldisins. 

„Við trúum á þjóðarheimilið, að samfélag eigi að taka öllum opnum örmum, að þar eigi að ríkja jafnrétti og traust milli borgaranna innbyrðis og milli þeirra og ríkisvaldsins. Eitt grundvallarstefið er umhyggja fyrir þeim sem standa höllum fæti en markmiðið er að sérhver einstaklingur öðlist styrk til að lifa mannsæmandi lífi og rækta hæfileika sína, óháð efnahag, stétt, kyni og stöðu.“ 

Sagði hún að þessi gildi skili ekki skjótfengnum gróða en að þau legðu grunn að dýpri og meiri ávinningi til lengri tíma. 

„Í heimi þar sem áberandi ráðamenn þjóða keppast við að hnykla vöðva sína, beita hótunum og þvingunum, hefur fordæmisgildi hins mjúka valds Norðurlanda aldrei verið meira,“ sagði Halla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert