Upplýsingar úr miklu magni tölvugagna sem tilheyrðu njósnafyrirtækinu PPP og stofnendum þess, Jóni Óttari Ólafssyni afbrotafræðingi og Guðmundi Hauki Gunnarssyni lögfræðingi benda til þess að miklu magni trúnaðargagna úr rannsóknum embættis sérstaks saksóknara hafi verið stolið frá embættinu.
Þetta kom fram í umfjöllun Kastljóss á Rúv í kvöld en Rúv fjallaði fyrst um málefni PPP í fréttaskýringaþættinum Kveik í síðustu viku í kjölfar umfangsmikils gagnaleka.
Stofnendur PPP voru kærðir fyrir þagnarskyldubrot 2012, grunaðir um að hafa tekið gögn ófrjálsri hendi frá sérstökum saksóknara. Saksóknari taldi málið ekki líklegt til sakfellingar og gaf ekki út ákæru.
Ólafur Þór Hauksson er héraðssaksóknari en embættið var áður kennt við sérstakan saksóknara. Staðfesti hann að þau gögn sem hann fékk að skoða hjá Rúv væru frá embættinu. Sagði hann vitanlega ekki um gögn að ræða sem eigi að vera úti í samfélaginu.
„Þetta eru gögn sem eiga að vera bundin trúnaði og hefðu aldrei átt að fara héðan út úr húsi,“ sagði Ólafur.
Sagði hann að miðað við það sem við blasi nú hafi ríkissaksóknari haft tilefni til þess að skoða á sínum tíma mjög nákvæmlega hvaða gögn PPP-menn hafi tekið í umrætt sinn.
Um er að ræða gögn úr símahlerunum í tengslum við rannsóknir sérstaks saksóknara. Meðal annars yfir 30 upptökur og hundruð uppskrifta úr símtalshlerunum. Afrakstur hlerana í tengslum við rannsóknir sérstaks saksóknara á málum sem tengdust efnahagshruninu.
Ekki hefur verið upplýst hvers vegna ekki var búið að eyða upptökunum og ekki er vitað hvernig þær bárust PPP en Jón Óttar hélt samkvæmt umfjöllun Kastljóss utan um framkvæmd hlerana hjá sérstökum saksóknara.
Símtæki tólf manna voru hleruð á árunum 2009 til 2011 í rannsóknum sérstaks saksóknara í tengslum við efnahagshrunið. Þar á meðal voru símtæki athafnamannsins Karls Wernerssonar, Sigurjóns Árnasonar fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Sigurðar Einarssonar fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, Hreiðars Más Sigurðssonar fyrrverandi forstjóra Kaupþings og Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar fyrrverandi forstjóra Saga Capital.
Margir þessara 12 voru síðar ákærðir og jafnvel dæmdir fyrir brot sín. Ríflega 20 viðmælendur þeirra eru þó einnig á upptökunum og í mörgum tilfellum voru símtöl fólks hleruð, sem höfðu ekkert með málin að gera.
Auk uppskrifta og upptaka af hleruðum símtölum er að finna í gögnum PPP afrit af heilu tölvunum í eigu einstaklinga sem voru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, t.a.m. tölvu Þórs Sigfússonar fyrrum forstjóra Sjóvár og Guðmundar Ólasonar forstjóra Milestone.
Á tölvunum er að finna ótal persónuleg gögn; trúnaðargögn um persónuleg fjármál og jafnvel fjölskylduljósmyndir.
Umfjöllun Kastljóss greinir frá því að eitt af síðustu rannsóknarverkefnum PPP hafi verið rannsókn á máli sem m.a. tengdist Sjóvá og starfsemi þess fyrir hrun.
Óljóst er hvort það réði för, en fyrsta kynningin sem merkt er vænlegum viðskiptavini PPP er merkt tryggingafélaginu.
Í kynningu PPP fyrir Sjóvá frá janúar 2012 kemur fram að einhverju áður hafi ónefndir starfsmenn Sjóvár afhent PPP kennitölur ákveðinna einstaklinga.
Jón Óttar og Guðmundur Haukur hafi síðan grafið upp upplýsingar um einstaklinganna; lýsingar á þeim, fullt nafn, fullyrðingar um glæpaferil þeirra, m.a. skipulagða búðarþjófnaði, fíkniefnaframleiðslu og fleira.
Í kynningunni til Sjóvár er einnig að finna trúnaðargögn með viðkvæmum persónuupplýsingum úr stórum sakamálarannsóknum lögreglu sem PPP-menn tóku þátt í nokkrum árum fyrr.
Ólafur Þór héraðssaksóknari sagði í samtali við Kastljós að verulegur misbrestur hafi orðið og sagðist hann ekki muna eftir því að slíkt hefði gerst áður. Sagði hann athæfi mannanna ganga gegn öllum prinsippum sem menn hafi lagt sig fram um að starfa eftir innan lögreglunnar.
„Ég hef ekki fordæmi á takteinunum sem líkjast þessu, þannig að þetta er nú svolítið reiðarslag,“ sagði Ólafur.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði embættið mjög slegið vegna málsins, umfangsins, hversu mikið magn gagna hefur verið tekið og gögn sem varða fólk sem hafði enga aðild að þeim málum sem voru til rannsóknar á sínum tíma.
„Það er mikið áfall fyrir okkur að sjá hvernig meðferðin var þarna.“
Sagði hún að á undanförnum árum hafi verið gerðar umtalsverðar breytingar sem gera eiga að verkum að erfiðara verði að stela gögnum.
Sigríður sagði þá að farið hafi fram tiltekt og skoðun á vörslu á efni vegna hlustanna og þá sagði hún að gögnum sé eytt reglulega og öðrum komið í varðveislu annars staðar.
„Auðvitað eigum við eftir að sjá hvað kemur meira út úr þessu máli. við eigum eftir að elta alla anga. Það er ekki eins og þetta verði látið kyrrt liggja.“