Borgin hækkar framlag til sjálfstætt starfandi skóla

Kostnaðarauki Reykjavíkurborgar vegna þessa er áætlaður 134 milljónir króna á …
Kostnaðarauki Reykjavíkurborgar vegna þessa er áætlaður 134 milljónir króna á ársgrundvelli. mbl.is/Karítas

Reykjavíkurborg hefur hækkað framlag til sjálfstætt starfandi skóla með nýjum samningi.

Samkvæmt honum verður framlag borgarinnar til skólanna 80% í stað 70-75% af heildarkostnaði á hvern nemanda, óháð fjölda. Kostnaðarauki Reykjavíkurborgar vegna þessa er áætlaður 134 milljónir króna á ársgrundvelli.

Framlagið er miðað við 80% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögunum á hvern nemenda samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Þá er prósentuhlutfall ekki lengur lækkað fyrir skóla sem telja fleiri en 200 nemendur eins og var í eldri samningum.

Samningurinn, sem gildir afturvirkt til 1. janúar og út næsta ár, hefur verið samþykktur í borgarráði og undirritaður af öllum skólunum.

„Undirritun þessa samkomulags er fagnaðarefni og mikilvægt að þetta góða starf haldi áfram því það er svo sannarlega dýrmætt framlag til menntunar barna í borginni og ég er sannfærð um að þetta styrki enn frekar okkar góða samstarf,“ er haft eftir Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra í tilkynningu borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert