Guðmundur: „Hvar hefurðu verið“

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, og Jón Pétur Zimsen, …
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, og Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tókust á um lesskilning ungmenna á þingi í dag. Samsett mynd/Colourbox/mbl.is/Eggert/Karítas

Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði barnamálaráðherra hvers vegna aðeins 40% nemenda útskrifist úr grunnskóla eftir tíu ára skyldunám án þess að vera með grunnfærni í lesskilningi. „Bíddu, hvar hefurðu verið,“ spurði ráðherra á móti.

Jón Pétur gerði lesskilning ungmenna að umræðuefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hann benti á að lesskilningur grunnskólabarna, sem sé grunnforsenda þess að búa í lýðræðissamfélagi, botnfrosinn.

Líklega grunnforsenda mikils brottfalls

„40% nemenda eru ekki með grunnfærni í lesskilningi eftir tíu ára skyldunám. Það er bæði brot á markmiðagrein grunnskólalaga og svik við nemendur, foreldra og samfélagið allt. Með þessu er verið að svipta grunnskólabörn tækifærum til lífsgæða til frambúðar, því að lengi býr að fyrstu gerð, og þetta er líklega grunnforsenda mikils brottfalls á framhaldsskólastiginu,“ sagði hann.

„Ísland hefur allar forsendur til þess að vera með afburðaárangur í grunnskólunum. Við erum með vel fjármagnað kerfi, fimm ára kennaranám, tæknivædda grunnskóla, vel menntað bakland og erum ein ríkasta þjóð í heimi. Ég vil því spyrja hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hvers vegna 40% nemenda útskrifast eftir tíu ára skyldunám án þess að vera með grunnfærni í lesskilningi. Spurningin er einföld og hún er bara ein: Hvers vegna útskrifast 40% nemenda úr grunnskóla eftir tíu ára skyldunám án þess að vera með grunnfærni í lesskilningi,“ spurði Jón Pétur.

Ætla að taka til hendinni

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, brást við með því að spyrja þingmanninn til baka.

„Ég verð nú bara að byrja á því að spyrja: Bíddu, hvar hefurðu verið? Hverjir hafa verið að stjórna hérna? Við í ríkisstjórninni? Nei. Aftur á móti erum við verkstjórn og ætlum að taka til hendinni. Þinn flokkur hefur verið við völd undanfarna áratugi þannig að ég spyr: Hvað voruð þið að gera,“ spurði Guðmundur Ingi.

Hann hélt áfram og sagði að ríkisstjórnin væri að breyta kerfinu og taka upp samræmt mat.

Fjórtán ný samræmd próf í þróun

„Það eru 14 ný samræmd próf í lesskilningi og stærðfræði sem eru núna í þróun. Við erum búin að leggja fyrir 7.000 börn í 26 skólum tilraunaverkefni sem verið er að fullvinna núna og það er stefnt að því næsta vor að taka í gagnið samræmt kerfi til þess að fylgja barninu frá upphafi til enda, frá 4.–10. bekkjar. Við ætlum að vera með kerfi sem grípur börnin strax, fyrir utan það að ég fór í mína fyrstu heimsókn út á land til Vestmannaeyja og kynnti mér þar Kveikjum neistann, frábært kerfi sem er einmitt hannað til að hjálpa börnum að lesa. Það er kerfi sem er byggt upp einmitt til að hjálpa þessum einstaklingum,“ sagði ráðherra.

Hann bætti við að stjórnvöld hefðu leitað til Finnlands sem hefði staðið sig best í þessum málaflokki.

Blaðrað í allar áttir

Jón Pétur brást við með því að vilja leiðrétta ummæli ráðherra varðandi Finnland. Hann sagði Finna vera langt frá því að vera efstir og að þeir hefðu hrapað síðustu ár í árangurskönnunum.

„Svaraði hæstvirtur ráðherra spurningunni: Hvað er að? Ekki orð um það. Blaðraði hér út og suður, hægri, vinstri og engin svör. Ég vil að fólk átti sig á því að hér eru engin svör við því hvers vegna staðan er svona. Hvers vegna er staðan svona? Að öðru leyti væri gott að benda á að þessi matsferill sem hæstvirtur ráðherra er að leggja allt sitt traust á byggir á samræmdum könnunarprófum, hæfnirammanum þar, og samræmdu könnunarprófin byggja á samræmdum lokaprófum sem byggja ekki á núgildandi námskrá. Þannig að við erum að búa til kerfi sem byggir ekki á þeirri námskrá sem er núna og þetta ætlar hæstvirtur ráðherra að halla sér á. Það er með ólíkindum hvernig er talað er um menntamál hér. Ég frábið mér að það sé verið að gera grín að námsárangri barna hér í pontu,“ sagði Jón Pétur.

Ásökunum vísað til föðurhúsanna

Guðmundur kvaðst ekki vera að gera grín að menntun eða stöðu barna og það hefði hann aldrei gert.

„Aftur á móti mun ég vísa þessu beint til föðurhúsanna, til Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið við völd allan þennan tíma. Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert? Hvað hefur flokkur háttvirts þingmanns gert? Hver er staðan? Af hverju er staðan svona í dag? Er það ríkisstjórninni í dag að kenna? Nei, flokkunum sem hafa verið hér við völd undanfarna áratugi, það er þeim að kenna að staðan er svona í dag. Við erum einmitt að leita lausna og við munum finna lausnir og koma þeim á framfæri,“ sagði Guðmundur Ingi.

Hann bætti við að stjórnvöld væru m.a. að skoða forrit sem væri leikur til að kenna börnum að lesa.

„Leikur sem virkar þannig að krakkarnir fara í ákveðið borð og þegar þau ná borðinu fara þau á næsta borð. Þetta er hvetjandi leikur sem virkar frábærlega. Við höfum fengið þennan leik og hann er kominn og við erum að vinna að því að greina nákvæmlega börn sem þurfa helst á hjálp að halda. Við munum, ólíkt fyrri ríkisstjórn, sjá til þess að þessum börnum verði hjálpað,“ sagði ráðherra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert