Innlyksa síðan í gærkvöldi

Enn er töluvert vatnsmagn í Héraðsvötnum.
Enn er töluvert vatnsmagn í Héraðsvötnum. Ljósmynd/Þorgrímur Ómar Tavsen

Íbúar Syðri- og Ytri-Húsabakka í Skagafirði eru innlyksa við hús sín eftir að bæði Héraðsvötn og Húseyjarkvísl flæddu yfir bakka sína og yfir veginn að bæjunum í gærkvöld.

Gífurlegir vatnavextir voru í ýmsum ám og fljótum á Norðurlandi í gær en almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sendi í gærkvöldi út viðvörun vegna vaxta í Austari-Jökulsá og Héraðsvötnum.

„Ég var á leiðinni heim klukkan hálf tíu í gærkvöldi og þá var nú byrjað að koma vel á veginn og svo bætti bara í það jafnt og þétt, ætli hámarkið hafi ekki verið klukkan fjögur í nótt,“ segir Þorgrímur Ómar Tavsen á Ytri-Húsabakka í samtali við mbl.is en fljótlega varð vatnsmagn á veginum þannig að hann varð ófær.

Kemst kannski út á morgun

Þó svo að straumurinn í ánum fari nú minnkandi er enn eitthvað í að Þorgrímur Ómar komist leiðar sinnar. 

„Það er örlítið að sjatna. Þegar ég fór út í morgun setti ég stiku hingað í kanntinn hjá mér og það er búið að síga um fet síðan,“ sagði Þorgrímur Ómar þegar blaðamaður ræddi við hann upp úr hádegi.

Þú veist þá ekkert hvenær þú munt losna út?

„Nei, þetta mun taka töluverðan tíma, þetta er svo mikið magn. Ég held að það verði nú kannski hægt að athuga í hádeginu á morgun hvort að vegurinn sé enn þá á sínum stað.“

Annað eins hefur ekki sést í 60 ár

Spurður hvort hann muni eftir öðrum eins vatnavöxtum segir Þorgrímur Ómar:

„Nei. Við hjónin erum nú bara búin að vera hérna frá 2019 en þau á syðri bænum segja að það séu 60 ár síðan það kom eitthvað viðlíka.“

Hann bætir við að ástandið sé enn verra á Syðri-Húsabakka en þar flæddi ekki aðeins yfir veginn líkt og hjá honum heldur líka hlaðið.

Nýtir tímann vel

Þorgrímur Ómar er þrátt fyrir allt rólegur yfir ástandinu.

„Það er svo mikill friður og ró að vera hérna að það er alveg frábært,“ segir hann og bætir við að hann nýti tímann á meðan hann sé innilokaður vel.

Þorgrímur Ómar er nefnilega á fullu í að koma upp veglegu smábátasafni í hlöðu sinni sem hann stefnir á að opna fyrir gestum um júní.

Þorgrímur birti myndskeið af stöðu vatnavaxta við bæinn á Facebook-síðu safnsins í morgun.

 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka