Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að svo virðist sem skipulag borgarinnar um þéttingu byggðar snúist um að hafa alla birtu af venjulegu fólki. Hún segir tímabært að þau sem stjórni borginni hlusti á raddir venjulegs fólks.
Sólveig Anna tjáir sig um þetta á Facebook í kjölfar fréttar Rúv, þar sem rætt er við Ian Mcdonald, íbúa í fjölbýlishúsi í Gufunesi. Ian lýsti raunum sínum í kvöldfréttum Rúv í gær, en verið er að reisa fjölbýlishús nálægt fjölbýlishúsinu sem hann býr í. Aðeins tíu metrar munu skilja húsin að og missa Ian og fjölskylda nær allt sólarljós þegar framkvæmdunum lýkur.
„Haldið þið að svona framkvæmd yrði heimiluð í einbýlishúsahverfinu neðst í Fossvoginum? Eða í vesturbæ reykvískrar valdastéttar? Nei, sannarlega ekki. En það virðist vera allt í lagi að ráðast að lífsgæðum þeirra sem búa í fjölbýlishúsum langt frá fína fólkinu með þessu snarruglaða þéttingar-dogma.
Er ekki tímabært að þau sem stjórna þessari borg fari að hlusta á raddir venjulegs fólks og heyra hvað sagt er: Við viljum ekki búa í myrkri svo að verktakar græði meira og óveigjanlegir þéttingar- harðlínumenn geti klappað sjálfum sér á bakið fyrir magnaðan árangur,“ skrifar Sólveig Anna í færslu um fréttina.
Sólveig Anna var þangað til í síðasta mánuði félagi í Sósíalistaflokknum og í framboði fyrir flokkinn í Reykjavík í síðustu þingkosningum. Hún sagði sig úr flokknum í kjölfar orðaskipta við Maríu Pétursdóttur, fyrrverandi formanns málefnastjórnar flokksins, í Facebook-hópnum Rauða þræðinum, umræðuvettvangi um samfélagsmál og sósíalisma. Sósíalistaflokkurinn er einn þeirra flokka sem nú eru í meirihluta í borginni.