Hiti gæti ítrekað farið yfir 20 gráður á Austurlandi í næstu viku ef spár Bliku og Veðurstofunnar ganga eftir. Búist er við suðvestanátt með auknum hlýindum um allt land þó að ekki verði eins hlýtt um vestanvert landið.
Þá spáir einnig hlýindum á Norðurlandi þar sem meðalhiti það sem af er mánuði mælist um 4 gráðum hærri en á meðalári.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, segist sjálfur vilja einblína fremur á það hret sem er fram undan og að betra sé að fagna ekki of snemma, en vissulega líti spáin vel út í næstu viku.
„Það á að hlýna aftur eftir helgina. Spárnar gefa til kynna að þetta líti vel út í einhverja daga í næstu viku,“ segir Einar.
Hins vegar þarf fólk að bíða af sér helgina þar sem jafnvel er búist við hálku á heiðum.
„Það er hæð sem nálgast landið sem er að veita þessi hlýindi. En fyrst þurfum við að sitja af okkur leiðinlega hálku og snjóþekju á heiðum,“ segir Einar.