Umfangsmikill gagnastuldur frá embætti sérstaks saksóknara kemur Sigurði G. Guðjónssyni hæstaréttarlögmanni ekki á óvart, en hann var verjandi Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans í hrunmálunum svokölluðu.
Það hafi legið fyrir árið 2011 að gagnastuldur hafi átt sér stað hjá embættinu, en hann hafi ekki verið rannsakaður til hlítar af hálfu ríkissaksóknara. Hefði það verið gert á sínum tíma, hefði embætti sérstaks saksóknara verið lagt niður.
Sigurður telur að Ólafur Þór Hauksson, fyrrverandi sérstakur saksóknari og núverandi héraðssaksóknari, og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari eigi að segja af sér vegna málsins.
Upptökur af símhlerununum úr síma Sigurjóns eru meðal gagna í gagnastuldinum sem fjallað var um í Kastljósi í gærkvöldi, en tveir lögreglumenn sem störfuðu hjá embættinu, þeir Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Haukur Gunnarsson, tóku gögnin ófrjálsri hendi. Nýttu þeir gögnin meðal annars til kynningar á fyrirtæki sínu PPP.
Fram kom í Kastljósi að í gögnunum væru meðal annars upptökur af símhlerunum 12 einstaklinga. Í einhverjum tilfellum hafi verið um að ræða persónuleg símtöl um viðkvæm mál sem ekki höfðu neitt gildi fyrir rannsókn mála hjá sérstökum saksóknara. Upptökur sem í raun hefði átt að eyða.
„Ég held að þorri þessara hlerana hafi verið algjörlega tilgangslaus, enda var það þannig að engir sakborningar voru upplýstir um að símar þeirra hefðu verið hleraðir og það á að gera almennt eins fljótt og möguleg ert, eftir að aðgerð lýkur,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.
„Það sem er merkilegt við þetta embætti sérstaks saksóknara er það að menn voru ekki upplýstir um það fyrr en á árinu 2012, eftir að það var komin fyrirspurn á Alþingi til þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, að símar þeirra hefðu verið hleraðir. Þá hlupu lögreglumenn frá embættinu á milli lögmanna til að tilkynna að hlerun hefði átt sér stað.“
Það hafi svo komið í ljós að símtöl Sigurjóns við ýmsa aðila, sem sumir hverjir höfðu ekki réttarstöðu sakborninga, hafi verið hleruð.
„Og það eftir að gæsluvarðahaldi lauk og strax eftir að hann fór út úr höfuðstöðum sérstaks saksóknara. Þá var farið að hlera hann,“ segir Sigurður. Einnig hafi símtöl við verjendur verið hleruð. Um hafi verið að ræða gróf brot á mannréttindum sakborninga, sem enginn hafi axlað ábyrgð á.
„Svo kemur sérstakur saksóknari og segir að hann hafi ekki vitað að öll þessi gögn hafi farið út úr embættinu. Þessi auma málsvörn sérstaks saksóknara í Kastljósinu í gær, það er dapurt að horfa upp á þetta,“ segir Sigurður.
„Hann vissi af því árið 2011 að starfsmenn hjá honum voru að vinna fyrir og selja skiptastjórum úti í bæ, sem voru líka að sækja á þessa menn, upplýsingar og gögn sem hafði verið aflað stundum með húsleit og stundum með því að fjármálaeftirlitið hafði sent þau. Þetta voru trúnaðarmál.“
Þeir Jón Óttar og Guðmundur Haukur voru kærðir fyrir þagnarskyldubrot árið 2012 grunaðir um að taka gögn úr hirslum sérstaks saksóknara og afhenda þrotabúi Milestone.
Í Kastljósi kom fram að það hefði verið almennur grunur um það meðal fyrrverandi yfirmanna, starfsmanna og annarra innan lögreglu að þeir hefðu tekið fleiri gögn ófrjálsri hendi.
Margir hafi lýst yfir vonbrigðum með rannsókn ríkissaksóknara á málinu þar sem ekki hafi verið farið í aðgerðir til að leita af sér grun um meintan gagnastuld. Málinu var lokið af hálfu ríkissaksóknara árið 2013 og það ekki talið líklegt til sakfellingar.
Sigurður er sammála því að rannsókninni hafi verið verulega ábótavant.
„Engum datt í hug hjá sérstökum saksóknara á þessum tíma að athuga umfangið. Skoða tölvur þessara manna sem voru alveg örugglega sakborningar á þessum tíma, en þetta er bara þaggað niður og gerður starfslokasamningur við mennina.“
Sigurður segir að hafi sérstakur saksóknari ekki verið meðvitaður um umfang gagnalekans á sínum tíma þá hafi að minnsta kosti átt að skoða hvort frekari gögn hefðu farið úr húsi og hve mikið hefði verið valsað um skjalageymslur embættisins.
Hann telur umfang hlerananna þó ekki hafa haft áhrif á niðurstöður dómsmála, enda hafi að miklu leyti verið um að ræða upptökur af persónulegum símtölum sem ekki hafi haft neina þýðingu fyrir rannsókn mála. Þetta sýni hins vegar alvarleikann.
„Ef einhverjir tveir eiga að segja af sér þá er það ríkissaksóknari og sérstakur saksóknari eða héraðssaksóknari,“ segir Sigurður.
„Ef þetta mál hefði verið rannsakað til hlítar og menn komist að raun um hvernig var staðan innan embættis sérstaks saksóknara árið 2011, þá hefði þetta embætti lognast út af, verið lagt af. Og þá hefði ekki verið efnt til allra þessara nornaréttarhalda sem eru rétt að klárast.“