„Þetta hefur ekki verið svona áður“

Til vinstri má sjá hvernig Ald­eyj­ar­foss sem er rétt hjá …
Til vinstri má sjá hvernig Ald­eyj­ar­foss sem er rétt hjá Stóruvöllum leit út í gær­kvöldi. Til hægri má sjá hvernig foss­inn lít­ur út í venju­legu ár­ferði og rennsli í Skjálf­andafljóti er minna. Sam­sett mynd/​Ljós­mynd/​Krist­inn Ingi Pét­urs­son/​Sonja Sif Þórólfs­dótt­ir

„Þetta eru helvíti miklir vextir og ég held að þetta hafi sjaldan farið svona hátt,“ segir Garðar Jónsson, bóndi á Stóruvöllum í Bárðardal, um gífurlega vatnavexti sem voru í Skjálfandafljóti í gærkvöldi og í nótt.

Vatnsrennsli í fljótinu fór upp í 800 rúmmetra á sekúndu þegar mest lét en degi áður hafði flæðið verið um 160 metrar á sekúndu.

Garðar hefur verið með búskap við Sjálfandafljót í fjölda ára en hann segir þessar leysingar skera sig frá öðrum að mjög ákveðnu leyti.

Enginn snjór neins staðar

„Þetta er svo skrítið því það er enginn snjór neins staðar á láglendi eða niðri í dölum. [...] Það hefur yfirleitt komið hellingur úr snjónum hérna í umhverfinu en það er ekkert úr umhverfinu nema bara nokkrar þverár eins og gengur en þær eru bara svona litlar.“

Manstu eftir öðrum eins leysingum í fljótinu?

„Ekki í svona auðu. En það hafa náttúrulega verið meiri vextir þegar hefur verið snjór og þá verða stíflur og alls konar. En þetta hefur ekki verið svona áður, allavega ekki svo ég muni eftir.“

„Rosalega hlýtt í gær“

Í samtali við mbl.is í morgun útskýrði náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands að mikil hlýindi á Norðausturlandi síðustu daga skírðu þessa miklu vatanvexti og getur Garðar vottað fyrir það.

„Það var rosalega hlýtt í gær og mikill vindur líka þannig það er náttúrulega svakalega mikil leysing þar sem snjór var,“ segir Garðar.

Hann bætir þó við að nú sé farið að hjaðna verulega í fljótinu og vatnsflæði komið niður í um 500 rúmmetra á sekúndu.

Aðspurður segir Garðar að engar sérstakar ráðstafanir hafi þurft að gera vegna vatnavaxtanna en að einhver truflun verði vegna vegar sem flæddi yfir í Bárðardal í gær.

Í samtali við mbl.is í morgun sagði verkstjóri vegagerðarinnar á svæðinu að beðið væri eftir að dregi úr flæðinu í Sjálfandafljóti til þess að hægt væri að hefja viðhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert