„Ég átta mig ekki á hvaða ræðu þingmaðurinn var að hlusta á. Mín afstaða er skýr. Ég svaraði þingmanninum með skýrum hætti. Ég lít þetta mál mjög alvarlegum augum. Ég hef tjáð mig um það opinberlega,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra er hún svaraði fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Miðflokksins, um rannsókn á störfum ríkissaksóknara.
„Mín afstaða til alvarleika málsins er algerlega skýr. Ég ætla ekki hlusta á annað,“ sagði ráðherra enn fremur.
Sigríður gerði njósnamálið sem Kveikur hefur fjallað um að undanförnu að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, en Sigríður nefndi málið lekamál.
„Í framhaldi af þeirri umræðu sem fór fram hér áðan þá langar mig að spyrja hæstvirtan dómsmálaráðherra — í ljósi þess að málið er, a.m.k. svona opinberlega, búið að velkjast um í eina viku, en af einmitt Kveiksþætti má ráða að einhver fórnarlömb þessa leka hafa nú fengið einhvern fyrirvara og vitneskju um málið — hvenær dómsmálaráðuneytið og lögreglan fékk vitneskju um lekann og umfang lekans, ef það liggur hreinlega fyrir hjá lögreglunni og ráðuneytinu. Mig langar líka að spyrja um hvort það hafi verið gerður einhver reki að því að ná utan um málið og umfangið,“ sagði Sigríður.
„Hæstvirtur dómsmálaráðherra vísaði í svari áðan í óundirbúnum fyrirspurnum til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu sem er auðvitað gott og gilt. Það er þó rétt að hafa í huga að þessir atburðir áttu sér stað löngu fyrir tíð þeirrar nefndar og sú nefnd er þeim takmörkunum háð að henni er falið að hafa eftirlit með störfum lögreglu en ekki t.d. ríkissaksóknara. En það hefur einmitt komið fram að málið hefur nú komið inn á það borð án þess að ríkissaksóknari virðist hafa haft áhuga á að reka lekamálið eða undanfara þess með einhverjum hætti. Þess vegna langar mig líka að spyrja sérstaklega hæstvirtan dómsmálaráðherra hvernig hún sér að fram fari einhvers konar rannsókn á þeim störfum ríkissaksóknara sem lúta að þessu máli,“ sagði Sigríður enn fremur.
Þorbjörg Sigríður sagðist vera þeirrar skoðunar að fórnarlömb í þessu máli væru vissulega og sannarlega það fólk sem upplýsingarnar vörðuðu en fórnarlömbin í samhengi við traust og trúverðugleika kerfisins væru líka almenningur allur.
„Háttvirtur þingmaður nefnir það hvenær ég eða dómsmálaráðuneytið höfum fengið upplýsingar um þetta mál. Hvað mig sjálfa varðar þá var ég upplýst um að þáttur yrði til umfjöllunar fyrir viku síðan. Ég vissi af því sama dag og umfjöllunin hófst að eitthvað með þessum hætti eða eitthvert mál yrði til umfjöllunar í Kveik. Þá vissi ég af þessu máli í fyrsta sinn. Þingmaðurinn spyr um eftirfylgni með þessu máli og hún skiptir máli. Það skiptir máli að fólk upplifi að svona mál fái skoðun. Það er staðreynd í málinu og Margrét Einarsdóttir lagaprófessor, formaður nefndar um störf með lögreglu, hefur lýst því yfir að strax eftir að þessi umfjöllun hófst hafi hún óskað eftir öllum gögnum og til greina komi að óska eftir frekari gögnum eftir þáttinn í gærkvöld og það liggur fyrir að ríkissaksóknari er með þetta mál núna til umfjöllunar og meðferðar,“ sagði ráðherra.
Hún tók fram að hún væri ekki nákvæmlega inni í því hvað væri þar til skoðunar en þessir tveir aðilar, opinberir aðilar sem færu með þessi mál, væru með þau til skoðunar núna. Hún sagði jafnframt að fyrstu viðbrögð ríkislögreglustjóra um það hvaða augum kerfið liti þessi mál væru jákvæð.
„Mér finnst jákvætt að við heyrum það og skynjum að fólk er slegið yfir því að svona hafi getað hent og sé viljugt til þess og ætli að bregðast við í kjölfarið með raunverulegum og uppbyggilegum hætti,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
Sigríður svaraði og sagðist gefa afskaplega lítið fyrir það að fólk væri slegið yfir þessu máli.
„Að sjálfsögðu er fólk slegið. Öll þjóðin er slegin, þó það nú væri. Það er ekki bara eitthvert brot á prinsippum að þessum gögnum hafi verið lekið, eins og héraðssaksóknari, fyrrverandi sérstakur saksóknari, sagði þegar hann var að lýsa þessu máli í þættinum í gær. Brot á prinsippum? Þetta er brot á lögum og þetta er mjög alvarlegt brot. Ég kalla eftir því og geri athugasemdir við það ef hæstvirtur dómsmálaráðherra, sem er ekki bara yfirmaður einnar stofnunar eins og á við um aðra ráðherra og undirstofnanir þeirra — hæstvirtur dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar,“ sagði Sigríður.
Hún sagði að það væri grundvallarmunur á þeirri stöðu og stöðu annarra ráðherra sem færu með yfirstjórnarvald yfir öðrum stofnunum, undirstofnunum sínum.
„Þess vegna ítreka ég spurninguna hvað hæstvirtur ráðherra hafi gert til að fá upplýsingar um það hvenær nákvæmlega lögreglan og ríkissaksóknari urðu þess fyrst áskynja að þessi gögn væru þarna úti og um umfang þeirra. Ég bendi á það að mál virðast vera fyrnd hér og það er auðvitað mjög alvarlegt ef það er þannig að þau eru fyrnd vegna vanrækslu embættanna í þessu máli.“
Þorbjörg Sigríður sagðist þá ekki átta sig á því hvaða ræðu þingmaðurinn hefði að hlusta á.
„Mín afstaða er skýr. Ég svaraði þingmanninum með skýrum hætti. Ég lít þetta mál mjög alvarlegum augum. Ég hef tjáð mig um það opinberlega. Ég er að tjá mig um það núna hér í þessum þingsal að ég lít þetta mál mjög alvarlegum augum, hér er um alvarleg mál að ræða. Að hún ætli að vitna í einhverja aðra aðila og heimfæra þær skoðanir upp á mig, ég bara átta mig ekki á því hvað þingmaðurinn er að fara. Málin eru til skoðunar. Málin eru til rannsóknar hjá tveimur opinberum aðilum. Þannig liggur í málinu núna og það er hinn eðlilegi upphafsvettvangur þessara mála. Mín afstaða til alvarleika málsins er algerlega skýr. Ég ætla ekki hlusta á annað,“ sagði ráðherra.