„Við getum ekki haldið áfram eins og við höfum gert“

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir er sviðsstjóri lýðheilsusviðs embættis landlæknis og fundarstjóri …
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir er sviðsstjóri lýðheilsusviðs embættis landlæknis og fundarstjóri Velsældarþings. Ljósmynd/Velsældarþing

Sjá má aukna vanlíðan og aukinn einmanaleika meðal fólks. Mikilvægt sé að gera hlutina öðruvísi. „Fólk er í minni tengslum við sig sjálft, náttúruna og við aðra,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu hjá embætti landlæknis og fundarstjóri, á Velsældarþinginu í Hörpu.

Velsældarþingið var formlega sett í morgun. Þingið sækja tæplega 300 þátttakendur sem koma úr atvinnulífinu, alþjóðastofnunum og fræðasamfélaginu. Á þinginu er rætt hvernig megi byggja hagkerfi þar sem lífsgæði, heilsa, réttlæti og sjálfbærni eru í forgrunni.

„Við þurfum að finna von hjá fólki og skapa aðstæður þannig fólk geti hlúð vel að sjálfu sér og umhverfinu sínu. Við þurfum að finna leið til þess að fá alla til að vinna að heilsu og vellíðan. Við þurfum að búa til samfélag sem stuðlar að velsæld,” segir Dóra í samtali við mbl.is.

Dóra segir samfélagið vera mjög háð hagfræðilegum gróða og það hafi ekki leitt okkur á góða braut og nauðsynlegt sé að gera hlutina öðruvísi.

 

Dóra segir að sjá megi aukna vanlíðan og aukinn einmanaleika meðal fólks. Það þurfi því að hlusta á almenning og virkja umræðuna.

„Fólk er í minni tengslum við sig sjálft, náttúruna og við aðra. [...] Við þurfum að endurskapa hagkerfið vegna þess að það er ekki að virka nógu vel. Við getum ekki haldið svona áfram, jörðin mun lifa af án okkar, en við munum ekki geta lifað á þessari jörð nema við breytum einhverju. Það er í rauninni aðalástæðan fyrir velferðarþinginu.”

Þingið stendur yfir í tvo daga og er haldið af embætti landlæknis í samstarfi við fjölmargar innlendar og alþjóðlegar stofnanir.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert