Kópavogur fagnar 70 ára afmæli

Mikið stuð í Boðanum, félagsmiðstöð aldraðra í Kópavogi.
Mikið stuð í Boðanum, félagsmiðstöð aldraðra í Kópavogi. Ljósmynd/Kópavogsbær

Mikil dagskrá er í Kópavogi þessa vikuna, en bæjarfélagið fagnar 70 ára afmæli sínu sunnudaginn 11. maí.

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, heimsækir bæinn á sunnudag og tekur þátt í Barnamenningarhátíð, sem verður með sérstökum afmælisbrag þann daginn.

Dagskrá hátíðarinnar

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri hóf í dag dagskrána þegar hún heimsótti félagsmiðstöðvar aldraðra og bauð upp á afmælisköku. 

„Á morgun ber það hæst að boðið verður upp á afmælisköku fyrir gesti og gangandi í Smáralindinni og verða Ásdís bæjarstjóri og bæjarfulltrúar þar að gefa kökuna. Einnig verða blöðrulistamenn og samkór Kópavogs á svæðinu,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill hjá bænum. 

Sama dag verður uppskeruhátíð Barnamenningarhátíðarinnar frá 11 til 17 á Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu.

Sunnudaginn 11. maí heldur Barnamenningarhátíðin áfram og verða meðal annars smiðjur, sápukúlur og skemmtiatriði við menningarhúsin. 

Frekari upplýsingar um dagskrá Barnamenningarhátíðar má finna hér.

Dagskrá lýkur á þriðjudag með götugöngu Virkni og vellíðan í Kópavogsdal. 

Allar nánari upplýsingar um dagskrá afmælishátíðarinnar er hægt að finna á vef Kópavogsbæjar.

Afmælisviðburðir allt árið

Á árinu eru ýmsir skemmtilegir viðburðir í Kópavogi til að fagna afmæli bæjarins. Íbúum sem fagna sjötugsafmæli á árinu var boðið til veislu í janúar, Össur Geirsson heiðurslistamaður hélt afmælistónleika í Norðurljósasal Hörpu í mars og auk þess fengu íbúar 17 ára og eldri menningargjöf frá bænum.

Hægt var að velja á milli árskorts í Gerðarsafn og inneignar á tónleikaröðina Tíbrá sem haldin er í salnum. 

Til stendur að halda fleiri afmælisviðburði á árinu og verða þeir kynntir síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert