„Höfum verið í sambandi við stjórnendur fyrirtækisins“

Daði Már Kristófersson, fjármála-og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, fjármála-og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristófer Liljar

„Við höfum verið í sambandi við stjórnendur fyrirtækisins og ég get ekkert rætt um það frekar í smáatriðum,“ segir Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, en eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær hefur PCC BakkiSilicon hf. (PCC) kært innflutning á kísilmálmi frá Kína til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og krefst viðskiptaverndarráðstafana.

Félagið segir innflutning á verulegu undirverði hafi leitt til alvarlegs samkeppnishalla, lægra söluverðs og rekstraróvissu sem setji framtíð 120 starfa og 30 milljarða fjárfestingu í uppnám.

„Við höfum móttekið kæruna og vinna við það er hafin,“ segir Daði.

Kári Marís Guðmundsson forstjóri PCC sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að útlitið væri dökkt.

„Við höfum reynt að halda starfsfólki upplýstu sem og öllum lykilaðilum á svæðinu, sveitarstjórn og verkalýðsfélögum og einnig birgjum og viðskiptavinum. Við metum stöðuna í hverri viku og látum vita um leið og eitthvað breytist. En útlitið er ákaflega dökkt,“ sagði Kári.

Fylgjumst náið með þróuninni

Spurður hvort hann deili ekki áhyggjum forráðamanna PCC og fleiri aðila um stöðu mála segir Daði:

„Jú, þetta eru mjög þröng og erfið skilyrði sem þeir finna sig í og við höfum rætt málin við fyrirtækið og fylgjumst náið með þróuninni.“

Í kærunni sem Morgunblaðið hefur undir höndum segir PCC að kínverskir framleiðendur selji kísilmálm til Evrópu, þar á meðal Íslands, á verði sem liggi langt undir raunverulegum framleiðslukostnaði. Með slíkum undirboðum, sem styrkt sé af ríkisaðstoð kínverskra stjórnvalda, sé verið að útrýma heilbrigðri samkeppni.

PCC fer fram á að lagðir verði innflutningstollar, tímabundin vernd eða aðrar takmarkanir á allan innflutning á kísilmálmi frá Kína. Slíkir tollar eru nú þegar til staðar í bæði Bandaríkjunum og Evrópu.

„Við þurfum að skoða þessa hluti í samhengi. Það eru líka fyrirtæki sem reiða sig á þessi aðföng á Íslandi,“ segir Daði Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert