Lalli Johns látinn

Margar sögur fóru af Lárusi Birni Svavarssyni, eða „Lalla Johns“ …
Margar sögur fóru af Lárusi Birni Svavarssyni, eða „Lalla Johns“ eins og han var þekktur, en maðurinn var einn þekktasti smáglæpamaður síðustu aldar hérlendis.

Lárus Björn Svavarsson, eða Lalli Johns, er látinn 74 ára að aldri. Var hann einn þekktasti smáglæpamaður Íslands á síðustu öld. 

Lárus varð landsþekktur eftir útgáfu heimildarmyndar Þorfinns Guðnasonar „Lalli Johns“ árið 2001, þar sem hann lýsti lífi sínu á götum Reykjavíkur, baráttu við fíkn og draumi sínum um betra líf. Myndin hlaut Edduverðlaunin fyrir heimildarmynd ársins það árið.

Sigurbjörn Svavarsson, bróðir Lárusar, greinir frá því á Facebook að Lárus hafi fallið frá í dag. Síðustu æviárin dvaldi hann á Hrafnistu.

Lárus fæddist í Reykjavík árið 1951 en foreldrar hans voru Ólafía Sigurbjörnsdóttir og Svavar Björnsson. 

Æska Lárusar var erfið. Hann ólst upp við fátækt og var vistaður nauðugur á barna- og unglingaheimilinu í Breiðuvík, þar sem hann þurfti að þola ofbeldi að hálfu eldri drengja. Hann hefur sagt frá því hvernig sú reynslan leiddi hann út í langvarandi neyslu. Þrátt fyrir þetta náði hann að snúa við blaðinu og lifði edrú í rúman áratug fyrir andlát sitt.

Lárus var síbrotamaður og svokallaður góðkunningi lögreglu í fjóra áratugi. DV greindi frá því árið 2018 að hann hefði hlotið 42 refsidóma frá 1969 nær einvörðungu fyrir þjófnað. Samtals hefur hann verið dæmdur í rúmlega 20 ára óskilorðsbundið fangelsi.

Hann vakti athygli árið 2007 fyrir að koma fram í umdeildri auglýsingum Öryggismiðstöðvarinnar. Sætti auglýsingin mikilli gagnrýni, ekki síst frá ÖBÍ, fyrir að ala á ótta á heimilislausu fólki og fíklum.

Lárus lætur eftir sig fjögur börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert