Í Íslandssögunni er 10. maí einn af stóru dögunum. Þá, árið 1940, fyrir 85 árum, hernámu Bretar Ísland, sem var þýðingarmikil aðgerð í heimsstyrjöldinni sem þá var hafin. Þjóðverjar ásældust norðurhöf sem varð að verja. Herskip Breta, tvö beitiskip og fimm tundurspillar, renndu inn á Reykjavíkurhöfn á óttun nætu. Áður hafði stór flugvél flogið yfir Reykjavík; eins konar váfugl sem boðaði hvað í uppsiglingu væri.
Hermennirnir, fyrsti hópurinn sem var um 750 manns, voru að hluta unglingspiltar frá Jórvíkurskíri á Englandi með litla herþjálfun. Fyrirstaðan í Reykjavík var heldur engin, samanber að lögreglulið Reykjavíkur var þegar þetta gerðist að stærstum hluta á Laugarvatni við æfingar.
Forgangsmál Breta við hernám Íslands var strandhögg á bústað þýska ambassadorsins við Túngötu í Reykjavík. Þar náðist Gerlach ræðismaður og í bústað hans var þá verið að brenna ýmis skjöl. Sendimaðurinn þýski var tekinn höndum og með fjölskyldu sinni komið í skip. Jafnhliða þessu fóru Bretarnir víða um og náðu Landsímahúsinu við Austurvöll. Þannig var samband við bæinn rofið, sem skipti miklu máli.
Talið er að um 2.000 hermenn hafi tekið þátt í hernámi á Íslandi; lið sem fljótt var fjölgað í. Alls komu hingað um 25.000 hermenn sem margs þurftu með. Alls voru fluttir hingað til lands 20.000 braggar; fljótreistar byggingar sem veittu ágætt skjól. Þá var einnig hafist handa við gerð flugvallar í Vatnsmýri.
Margvíslegar aðrar framkvæmdir fylgdu, gerð mannvirkja sem voru ágæt til síns brúks en ekki til langtímanota. Mörg af þeim voru rifin eða fjarlægð í stríðslok, en önnur eða að minnsta kosti rytjur af þeim standa og eru áhugaverð að skoða.
Eftirtektarverðar stríðsminjar má finna á nokkrum stöðum í Reykjavík. Margar slíkar eru í og við Öskjuhlíð. Neðanjarðarstjórnstöð hernámsliðsins er skammt fyrir neðan Perluna, hár varnarveggur er falinn í skógarrjóðri þar skammt frá og skotbyrgi eru við Bústaðaveg, rétt hjá Veðurstofunni. Sumir þessir minjastaðir hafa verið merktir og saga þeirra gerð sýnileg. Að skoða þetta getur verið göngutúr á fallegum vordegi. Áhugasamir verða hins vegar að leggjast í bókagrúsk til að kynna sér þær miklu samfélagsbreytingar sem hernáminu fylgdu, því að nútíminn kom til Íslands. Kyrrlátt bændasamfélag leið undir lok. Nýr heimur heilsaði.
Stríðminjar er einnig að finna í Elliðaárdal; það er neðan við götuna Fýlshóla. Þar er steypt skotbyrgi sem mjög er farið að molna úr en í stríðinu var þetta mikilvægt mannvirki. Fjöldi bygginga var í stríðinu reistur í varnarlínum við Reykjavík, oftast grjóthleðslur, en á stöku stöðum voru þau steypt eins og í Breiðholtinu.
Á Seltjarnarnesi eru sömuleiðis stríðsminjar. Ljóskastarahús á Suðurnesjum er þekkt kennileiti.
Í hernáminu létu Bretar til sín taka úti á landi, svo sem á Akureyri, Seyðisfirði og Reyðarfirði. Einnig á Selfossi og í Kaldaðarnesi í Flóa þar ekki langt frá. Þar var í skyndingu á fyrstu mánuðum hernáms útbúinn stór flugvöllur, sem var meðal annars notaður vegna eftirlitsflugs á Atlantshafi. Sá nýttist þó aðeins í fá ár eða fram til ársins 1943, en þá voru Bandaríkjamenn teknir við vörnum landsins. Ákvörðun þeirra var sú að byggja upp flugvöll nærri Keflavík og framhald þeirrar sögu er sú starfsemi sem í dag er á Miðnesheiði.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.