Veðurútlitið mjög gott - Hitinn gæti farið yfir 20 stig

Veðurfræðingur segir að hitinn geti náð allt að 18 stigum …
Veðurfræðingur segir að hitinn geti náð allt að 18 stigum á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Veðurútlitið er mjög gott fyrir vikuna,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, en á morgun sækir hlýrra loft að landinu og segir Teitur að hitinn geti náð yfir 20 stigum um landið norðaustan- og austanvert þegar best lætur.

„Allir fá eitthvað en sumar landshlutar fá betra veður en aðrir,“ segir Teitur. Hann segir að á köflum verði skýjað og einhver smá væta á Suður- og Vesturlandi en inn á milli komi þar góðir dagar.

Hitinn gæti náð 18 stigum á höfuðborgarsvæðinu

„Það stefnir í að þriðjudagurinn verði mjög góður á Suður-og Vesturlandi og þar með talið á höfuðborgarsvæðinu. Það verður sólskin og hlýtt og hitinn gæti náð allt að 18 stigum,“ segir Teitur í samtali við mbl.is.

Teitur segir að hæð við Færeyjar, sem ætli að verða kyrrstæð, beini þessu hlýja lofti til landsins og útlit sé fyrir að veðrið haldist svipað út alla vikuna.

„Það má kannski segja að það hafi komið lítið vorhret á föstudaginn á Suður-og Vesturlandi sem færði sig svo yfir norðaustanvert landið í nótt þar sem snjóaði á fjallvegum en sólin var fljót að bræða snjóinn. Þetta litla hret er nú úr sögunni og fram undan eru góðir dagar,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert