Ákærður fyrir að leyna verðmætum listaverkum

Búið er að ákæra Karl Emil, sambýliskonu og son.
Búið er að ákæra Karl Emil, sambýliskonu og son. Samsett mynd

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært Karl Emil Wernersson, einn umsvifamesta fjárfesti landsins fyrir efnahagshrunið, fyrir skilasvik. Sonur hans og sambýliskona hafa einnig verið ákærð, þau fyrir peningaþvætti.

Ríkisútvarpið greinir frá.

Málið tengist gjaldþroti Karls árið 2018 og því hvernig hann er sagður hafa komið dýrmætum eignum undan skiptastjóra þrotabúsins. Á meðal eigna sem um ræðir eru listaverk, fasteignir og félög skráð erlendis.

Skilaði „Reykjavíkurhöfn“ eftir Nínu

Húsleit var svo gerð af hálfu embættis héraðssaksóknara á heimili Karls að Blikanesi í Garðabæ árið 2022. Þar fundust listaverk eftir Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur og Karólínu Lárusdóttur sem ekki höfðu verið skráð hjá skiptastjóra.

Einu þeirra, Reykjavíkurhöfn eftir Nínu, skilaði Karl síðar. Tvö önnur voru afhent eftir að félagið Föstum ehf. greiddi þrotabúinu 7,7 milljónir króna fyrir þau.

Þrátt fyrir að skiptastjóri hafi fengið ráðstöfunum Karls rift fyrir dómi, breytir það ekki því að skilasvik geta varðað allt að sex ára fangelsi. Flest brotin áttu sér stað á árunum 2016 til 2018, að sögn saksóknara, en þá var hann ógjaldfær og mörg málaferli beindust að honum.

Einbýlishús, sumarhús á Ítalíu og Benz

Samkvæmt saksóknara hafði Karl áfram haft í sinni umsjá verðmætar eignir eftir að hann var tekinn til gjaldþrotaskipta. Hann er svo sagður hafa afsalað þeim til einstaklinga og félaga sem tengjast honum persónulega eða fjárhagslega.

Þar á meðal voru einbýlishús við Blikanes, sumarhús á Ítalíu og Mercedes Benz-bifreið.

Eignirnar voru fluttar yfir á félagið Faxar ehf., dótturfélag Faxa ehf., sem var í eigu Toska ehf. Karl afsalaði Toska til sonar síns sem tók þannig óbeint við eignunum.

Sonurinn ákærður fyrir peningaþvætti

Sonur Karls er ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við félaginu Toska ehf., sem varð eigandi lúxusbílsins og fasteignanna, þegar faðir hans var formlega gjaldþrota. Samkvæmt dómi Landsréttar var ráðstöfuninni rift og sonurinn dæmdur til að greiða á þriðja milljarð króna til þrotabúsins.

Þrotabúið hefur þegar fengið 133 milljónir króna fyrir fasteignina og bílinn en fram kemur að skiptastjóri hafi meðal annars að fara sjálfur til Ítalíu til að ná sumarhúsinu í umsjá búsins.

Sambýliskona Karls er sömuleiðis ákærð fyrir peningaþvætti. Hún tók við eignarhaldi á félaginu Nordic Pharma Investment árið 2018, en það félag var skráð á Tortóla.

Í ákæru segir að félagið hafi áður greitt Karli háar fjárhæðir sem leiddu til endurákvörðunar skatta hans árið 2015. Ráðstöfuninni var rift með dómi í janúar og þrotabúið krefst nú greiðslu skuldabréfa félagsins sem nema 527 milljónum króna.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert