Enn skelfur við Grjótárvatn

Jarðskjálftahrina reið yfir í Ljósufjallakerfinu um tíuleytið í morgun. Sex skjálftar mældust við Grjótárvatn á Mýrum, um eða rétt undir tveimur að stærð.

Þrír þeirra eru yfirfarnir af sérfræðingum Veðurstofu Íslands og mældust á 12-18 km dýpi.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á náttúruvakt Veðurstofunnar, segir um ósköp sambærilega virkni og sést hefur síðustu mánuði.

Kvika ekki að leita til yfirborðs

„Það hefur verið aukin virkni síðan 2021 sem svo færðist í aukana í ágúst á síðasta ári og hefur haldist svipuð síðan þá.“

Segir Salóme skjálftana í kerfinu flestalla á 15-20 km dýpi og möguleg merki um kvikuinnskot á miklu dýpi en þó séu engin merki um að kvika sé að leita til yfirborðs eins og er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert