Mikill hiti var í þingmönnum við upphafi þings í dag og snérust umræður annars vegar um fjarveru ráðherra á laugardaginn sem og af hverju atkvæðagreiðslu um veiðigjöld var óvænt frestað.
Atkvæðagreiðsla um lok 1. umræðu veiðigjaldafrumvarpsins fer fram á Alþingi í dag, en ljúka átti umræðunni á sérstökum aukafundi á laugardaginn. Þurfti hins vegar að fresta atkvæðagreiðslunni þar sem of fáir stjórnarliðar voru á þingfundi og lagði stjórnarandstaðan fram tillögu um að frumvarpinu yrði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar frekar en til atvinnuveganefndar.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra var ekki viðstödd á laugardaginn og þá óskaði stjórnarandstaðan eftir viðveru Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, til að taka þátt í umræðum. Hann mætti hins vegar ekki en Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði Daða hafa verið á leiðinni þegar umræðum lauk.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, upplýsti þingheim í dag að beiðnin um viðveru Daða hefði komist til skila en að hún væri ekki með yfirsýn yfir staðsetningu fólks sem ekki væri í þingsalnum.
Hún hefði fengið þær upplýsingar að hann væri að sinna skyldustörfum.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greindi þá frá því að hún hefði séð Daða Má í Smiðju, skrifstofuhúsnæði Alþingis, og því hefði ekkert verið því til fyrirstöðu fyrir Daða að mæta í þingsal á laugardaginn. Samt hefði Þórunn sagt Daða vera í opinberum erindagjörðum.
„Þegar ég labbaði yfir í Smiðju um hádegisbil á laugardaginn þá kemur það í ljós að þar situr hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra sem gegndi fyrir atvinnuvegaráðherra. Hér var búið að margkalla eftir hæstvirtum ráðherra í þingsal til að eiga samtal við þingheim, en forseti sagði að hann væri upptekinn í opinberum erindagjörðum. Hann var sem sagt upptekinn á vinnufundi Viðreisnar. Er það mikilvægara en að sinna þingheim?“ spurði Bryndís.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar úr Sjálfstæðisflokknum, Framsókn og Miðflokknum hafa margir hverjir tekið til máls undir liðnum „fundarstjórn forseta.“ Þórunn vakti athygli á því að hún hefði fengið þær upplýsingar að Daði væri að sinna skyldustörfum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að það væri ábyrgðarhluti að ráðherrar væru viðstaddir umræður um eigin mál, og að með fjarveru sinni sýndu þeir litla virðingu fyrir löggjafarvaldinu.
Áslaug Arna rifjaði einnig upp að þegar hún sjálf sat í ríkisstjórn hefðu forsetar þingsins, bæði Birgir Ármannsson og Steingrímur J. Sigfússon, gert skýlausa kröfu um nærveru ráðherra í umræðum.
„Ef þetta er sú virðing sem stjórnarliðar hafa fyrir löggjafarvaldinu, fyrir þingheimi og spegla það í sína hæstvirta ráðherra, þá á ég ekki til orð,“ sagði Áslaug.