„Áfall þegar við komumst að því hvar þessi leki kom upp“

Um 123 þúsund lítrar af olíu láku út í umhverfið.
Um 123 þúsund lítrar af olíu láku út í umhverfið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum svo ánægð með það hversu margir öryggisþættir voru til staðar á bensínstöðinni þegar hún var sett upp á sínum tíma. Þess vegna var það gríðarlegt áfall þegar við komumst að því hvar þessi leki kom upp,“ segir Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.

Lét hann orðin falla í vitnastúku í aðalmeðferð í málsókn Costco gegn Olíudreifingu sem lauk í dag. Bótamálsóknin er í tengslum við olíuleka sem uppgötvaðist síðla árs 2023. 

Láku þá um 123 þúsund lítrar af olíu út í umhverfið á um sex vikum eftir að olíubarki gaf sig í tanki stöðvarinnar. Ekki fór olía í grunnvatn en hún fór í fráveitukerfi og út í sjó.

Costco fékk 20 milljón króna stjórnvaldssekt frá Umhverfisstofnun vegna lekans.

Bergur Hauksson lögmaður auk dómsritara og forsvarsmönnum Olíudreifingar. Á vinstri …
Bergur Hauksson lögmaður auk dómsritara og forsvarsmönnum Olíudreifingar. Á vinstri hönd er Teitur Gissurarson, lögmaður Costco. Ljósmynd/aðsend

Aftengdi rofa svo hægt væri að dæla 

Deilt er um ábyrgð sem á rætur sínar að rekja til ágústmánaðar árið 2023. Costco óskaði þá eftir liðsinni starfsmanns Olíudreifingar sökum þess að bensíndælur virkuðu ekki á bensínstöð Costco í Kauptúni.

Starfsmaður Olíudreifingar sá villu í kerfinu og aftengdi rofa þannig að hægt yrði að setja dælur bensínstöðvanna aftur í gang. Þessi rofi er sagður hafa gegnt lykilhlutverki þannig að tölvukerfi Costco varð ekki vart við leka eftir að hann var aftengdur.

Þrátt fyrir aftenginguna hefði kerfi Costco átt að fá villumeldingu frá öðrum rofa sem einnig er innbyggður í kerfið að sögn öryggisstjóra Olíudreifingar sem var vitni í málinu.

Krefjast 70 milljóna króna 

Á þessari ákvörðun starfsmannsins byggir um 70 milljón króna bótakrafa Costco. Upphæðin er tilkomin vegna 20 milljón króna stjórnvaldssektar sem Umhverfisstofnun lagði á Costco auk um 50 milljóna króna sem Costco taldi sig hafa orðið af í útseldri olíu.

Olíudreifing bendir hins vegar á að í þessu tilfelli hafi verið tvö önnur kerfi sem hefðu átt að grípa inn í. Costco í Bretlandi hefði átt að sjá í kerfum sínum að birgðastaða væri ekki sú sama og sölutölur sögðu til um auk þess sem aðrir rofar hefðu átt að gefa til kynna að eitthvað væri í ólagi.

Eru enn að þjónusta Costco 

Enginn skriflegur samningur var um viðhald Olíudreifingar en reglulega var kallað í fyrirtækið til að sinna viðhaldi. Tiltók lögfræðingur Olíudreifingar, Bergur Hauksson, það ítrekað fyrir dómi og vildi hann þar með undirstrika að ábyrgð félagsins væri takmörkuð þar sem enginn þjónustusamningur væri til staðar.

Þrjú vitni komu fyrir dóminn. Svæðisstjóri frá Costco, öryggisstjóri Olíudreifingar og Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá heilbrigðiseftirlitinu. 

Olíudreifing er enn að sjá um viðhald og annað tilfallandi á dælum Costco í Kauptúni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert