Enn er verk að vinna í jafnréttismálum

Aðeins 37% íþróttaiðkenda eru konur.
Aðeins 37% íþróttaiðkenda eru konur. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Staða jafnréttis í íþróttastarfi á Íslandi er góð í alþjóðlegum samanburði en enn er verk að vinna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu um niðurstöður nýrrar alþjóðlegrar spurningakönnunar um jafnrétti í íþróttum.

„Staðan er góð borið saman við önnur þátttökuríki þrátt fyrir að ekki sé mikið um sértækar aðgerðir til þess að jafna stöðu kynjanna í stefnum eða aðgerðaáætlunum.

Nærri helmingur íslenskra svarenda hefur tekið upp stefnur eða aðgerðaáætlanir til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í íþróttum. Karlar eru í miklum meirihluta æðstu stjórnenda, meðan staðan er mun jafnari hjá næstæðstu stjórnendum og í stjórnum,“ segir í tilkynningunni.

Rétt rúmur þriðjungur þátttakenda

Þá kemur fram að heildarniðurstöður könnunarinnar í öllum þátttökuríkjunum gefi til kynna að konur standi höllum fæti í valdamestu stöðum íþróttahreyfingarinnar en einungis 12–14% forseta íþróttasamtaka eru konur.

Þá eru aðeins 22% skráðra þjálfara hjá samböndum í úrtakinu kvenkyns en rétt um þriðjungur sambandanna segjast hafa aðgerðaáætlanir til að bregðast við hallanum.

Loks segir að konur séu í heildina ekki nema 37% þátttakenda í íþróttastarfi í þátttökuríkjum könnunarinnar og er töluverður munur á þátttöku eftir aldri og íþróttagreinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert