Er búinn að grafa upp „fullgildar skýringar“

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari vill ekki tjá sig frekar um …
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari vill ekki tjá sig frekar um málið á meðan það er til rannsóknar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari hafnar öllum þeim ásökunum sem koma fram í viðtali við Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi lögreglumann og eiganda fyrirtækisins PPP, í Brotkasti í dag. 

Í viðtalinu segir Jón Óttar að Ólafur hafi verið búinn að ákveða að kæra þá Guðmund Hauk Gunnarsson þegar þeir undirrituðu verktakasamning um sér­fræðistörf á sviði rann­sókna hjá embætti sér­staks sak­sókn­ara árið 2012.

Ólafur hafi leitt þá í gildru, en tvímenningarnir voru kærðir fyrir þagnarskyldubrot vegna gruns um að þeir hefðu tekið gögn frá embætt­inu í óleyfi og af­hent skipta­stjóra þrota­bús Milest­one. Rík­is­sak­sókn­ari felldi málið hins veg­ar niður árið 2013 þar sem það þótti ekki lík­legt til sak­fell­ing­ar.

Á von á að vel verði farið ofan í saumana

Þá hélt Jón Óttar því einnig fram að Ólafur hefði sjálfur lekið gögnum í fjölmiðla nýlega sem sýndu fram á meintan gagnastuld af hálfu eigenda PPP úr kerfum embættis sérstaks saksóknara. Það hafi hann gert eftir að Jón Óttar kærði hann til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu í lok síðasta árs.

„Við höfnum þessum ásökunum og vísum til þess að málið sé til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi sem ég á von á að fari vel ofan í saumana á þessu. Á meðan erum við ekki að kommenta á þetta frekar,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

En hvað með þetta að þú hafir leitt hann í gildru árið 2012?

„Við höfnum öllum ásökunum sem koma fram í viðtalinu,“ ítrekar Ólafur.

Svörin koma í ljós þegar þar að kemur

Jón Óttar segir í viðtalinu að Ólafur hafi spurt hvort í lagi væri að dagsetja umræddan verktakasamning aftur í tímann, og samþykktu þeir það. Samningurinn er því dagsettur 2. janúar 2012 þó að hann hafi ekki verið gerður fyrr en í febrúar sama ár. Jón Óttar vill meina að þetta sýni fram á ásetning um að leiða þá í gildru.

Hver er skýringin á því að hann sé dagsettur aftur í tímann?

„Við teljum okkur hafa fullgildar skýringar á þessu öllu saman. Ég er búinn að grafa það upp. Það eru til svör við því og þau koma í ljós þegar þar að kemur,“ segir Ólafur.

Í yfirheyrsluskýrslu yfir Ólafi vegna rannsóknar á meintum brotum á þagnarskyldu Jóns Óttars og Guðmundar árið 2012, sem mbl.is hefur undir höndum, segir hann starfsannir skýringuna á því að samningurinn hafi verið dagsettur aftur í tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert