Fimm barna móðir vann 14 milljónir

Það voru ekki bara sólargeislarnir sem glöddu heppna miðaeigendur í …
Það voru ekki bara sólargeislarnir sem glöddu heppna miðaeigendur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega 150 milljónir króna voru dregnar út í Happdrætti Háskólans í kvöld og skiptust þær á milli rúmlega 4.100 miðaeigenda. Stærsti vinningurinn, 14 milljónir króna á tvöfaldan miða, fór til fimm barna móður sem var orðlaus þegar starfsmaður Happdrættisins hringdi í hana.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Happdrætti Háskóla Íslands. 

„Aðspurð hvað hún hygðist nýta peninginn í svaraði hún því til að fjölskyldan hefði kynnst því síðustu ár hversu mikilvægar minningar væru og því væri líklegast að peningurinn færi í að búa til góðar minningar með börnum og barnabörnum,“ segir í tilkynningunni. 

Átta einstaklingar unnu eina milljón hver, ellefu unnu 500 þúsund krónur og 379 manns unnu á bilinu 100 til 250 þúsund krónur.

Allur hagnaður af Happdrætti Háskóla Íslands rennur í uppbyggingu Háskóla Íslands og hefur happdrættisfé meðal annars verið notað til að byggja á þriðja tug húsa fyrir skólann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert