Gat ekki þverfótað fyrir útlenskum einkaspæjurum

Jón Óttar segir að hann myndi biðja þá afsökunar sem …
Jón Óttar segir að hann myndi biðja þá afsökunar sem hann njósnaði um, hitti hann þá úti á götu. Ljósmynd/Sigfús Már Pétursson

Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi lögreglumaður og annar eigenda fyrirtækisins PPP, viðurkennir að það hafi verið rangt að njósna um almenna borgara árið 2012. Hann hafi gripið til þessa ráðs ásamt kollega sínum þegar starfsferlinum var kippt undan þeim. Það afsaki ekki það sem þeir gerðu en útskýri það engu að síður.

Þetta kemur fram í viðtali Frosta Logasonar við hann í Brotkasti.

Jón Óttar tekur þó líka fram að lagaumhverfið hafi verið allt annað á þessum tíma, persónuverndarlöggjöfin hafi verið önnur. Þetta hafi því verið minna mál en í dag.

Greint var frá því í fréttaskýringaþættinum Kveik fyrir tveimur vikum að Björgólfur Thor Björgólfsson hefði fengið PPP til að njósna fyrir sig um persónur og leikendur í málsókn gegn hon­um sem stærsta eig­anda hins fallna Lands­banka árið 2008.

Var hann sagður hafa reynt að kom­ast á snoðir um það hvort Ró­bert Wessman væri á bak við mál­sókn­ina. Beind­ust njósn­irn­ar einna helst gegn Vil­hjálmi Bjarna­syni, síðar þing­manni Sjálf­stæðis­flokks, Ólafi Krist­ins­syni lög­manni og Jó­hann­esi Bjarna Björns­syni hæsta­rétt­ar­lög­manni.

Reyndu að búa sér til einhverja stöðu

Þeir Jón Óttar og Guðmundur Haukur Gunnarsson létu af störfum hjá sérstökum saksóknara um áramótin 2011 og 2012 til að koma á fót fyrirtækinu PPP sem sinnti verkefnum fyrir skiptastjóra þrotabúa og slitastjórnir banka.

Vorið 2012 kærði sérstakur saksóknari þá fyrir brot á þagnarskyldu vegna gruns um að þeir hefðu afhent skiptastjóra þrotabús Milestone gögn frá embættinu í óleyfi. Málið var þó fellt niður árið síðar.

Jón Óttar segir í viðtalinu við Frosta að sumarið 2012 hafi þeir félagar verið í miklu áfalli eftir að hafa verið kærðir fyrir þagnarskyldubrot vegna gruns um að hafa afhent skiptastjóra þrotabús Milestone gögn frá sérstökum saksóknara í óleyfi.

Þeir hafi ekki séð fram á mikla framtíð.

„Við erum að reyna að búa okkur til einhverja stöðu og erum að vinna hluti sem við áttum að sjálfsögðu ekki að gera og gerðum aldrei aftur. Ég er ekki að afsaka það neitt en þetta er eitthvað sem við áttum ekki að gera.“

Fyrrverandi MI5 og MI6-njósnarar

Það að starfsferlinum hafi verið kippt undan þeim útskýri hvað þeir gerðu en það afsaki það hins vegar ekki.

„Ég er ekkert fórnarlamb og hef aldrei gert eitthvað sem einhver hefur ýtt mér út í.“

Hann segir andrúmsloftið árið 2012 hafa verið mjög sérstakt.

„Það voru hérna alls konar útlenskir einkaspæjarar, kroll karlar að vinna fyrir slitastjórn Glitnis. Maður gat ekki þverfótað fyrir þessum mönnum í bænum. Þetta voru allt einhverjir fyrrverandi MI5 eða MI6 njósnarar og einhverjir svoleiðis karlar. Þeir voru að yfirheyra starfsmenn Glitnis fyrir hönd slitastjórnar.“

Spurður í viðtalinu hvað hann myndi segja við þá sem PPP njósnaði um á sínum tíma, ef hann hitti þá úti á götu í dag, segir Jón Óttar að hann myndi biðja þá afsökunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert