Hefðarfólk á hjólum á ferðinni í Reykjavík

Mótorhjólafólk snyrtilega klætt á klassískum og gamaldags hjólum.
Mótorhjólafólk snyrtilega klætt á klassískum og gamaldags hjólum. Ljósmynd/Hefðarfólk á hjólum

Á laugardaginn mega gestir og gangandi búast við prúðbúnum mótorhjólamönnum á ferð um götur Reykjavíkur. Viðburðurinn The Distinguished Gentleman's Ride eða Hefðarfólk á hjólum fer þá fram og er hluti af alþjóðlegum viðburði þar sem mótorhjólafólk kemur saman, snyrtilega klætt á gamaldags og klassískum mótorhjólum.

„Við byrjuðum með þennan viðburð árið 2018 á Íslandi en þetta byrjaði í Ástralíu. Einn félagi okkar tók eftir þessu og þótti honum tilvalið að vekja áhuga á þessu hérna heima til að auka sýnileika á mótorhjólafólki. Við vildum líka brjóta upp þessar staðalímyndir sem fólk hefur af mótorhjólafólki, það eru ekki allir leðurklæddir,“ segir Sigmundur Traustason, einn af skipuleggjendum Hefðarfólks á hjólum í samtali við mbl.is

Mikil stemning myndast ár hvert.
Mikil stemning myndast ár hvert. Ljósmynd/Hefðarfólk á hjólum

„Aðalástæðan fyrir þessu er að þetta er góðgerðarviðburður til að vekja athygli á heilsu karlmanna, sem veitir nú ekki af. Það er verið að beina sjónum að geðheilsu og krabbameini í blöðruhálskirtli. Fólk getur safnað áheitum og það rennur allt til alþjóðlegu Movember-góðgerðarsamtakanna sem vinna að því að auka athygli á heilsu karlmanna í heiminum. Einnig sjá þau um alls kyns forvarnir og rannsóknir á krabbameini og öðrum sjúkdómum,“ segir Sigmundur. 

Viðburðurinn fer fram víðs vegar í heiminum.
Viðburðurinn fer fram víðs vegar í heiminum. Ljósmynd/The Distunguished Gentlemans's Ride

Viðburðurinn hefst á bryggjunni við Granda Mathöll klukkan eitt og þar mun Kristján Björn Þórðarson frá versluninni Kormáki & Skildi ávarpa gesti og gangandi. Klukkan tvö verður lagt af stað í fylgd lögreglu, farið stuttan hring um Seltjarnarnes og miðbæ Reykjavíkur. Keyrslunni mun ljúka við Canopy Reykjavík hótelið í Hjartagarðinum við Laugarveg um hálf þrjú. Þar verður karlakór Kaffibarsins og Bartónar og munu þeir taka nokkur lög.

Aðspurður segist Sigmundur búast við 50-100 hjólum vegna góðrar veðurspár. 

„Fólk er að sýna þessu mikinn áhuga og þetta á fyrst og fremst að vera skemmtilegur viðburður.“

Hægt er að skrá sig eða styrkja málefnið inni á vefsíðu viðburðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert