Hitatölur um 20 stig út vikuna

Sumarblíða verður áfram á landinu fram yfir helgi.
Sumarblíða verður áfram á landinu fram yfir helgi. mbl.is/Eyþór

Blíðviðri ríkir nú á landinu öllu en veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að veðrið verði með álíka góðu móti fram yfir helgi.

„Já já, það er útlit fyrir að þetta verði allavega eitthvað fram yfir helgi,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurður hvort að góða veðrið sem landsmenn vöknuðu upp við í morgun komi til með að ríkja áfram.

Eitthvað skýjaþykkni og kannski smá súld

Almennt má búast við sólskini á landinu öllu, þó með nokkrum undantekningum á sunnan- og suðvestanverðu landinu.

„Þar kemur af og til eitthvað skýjaþykkni yfir og kannski einhver smá súld en restin af landinu er í fínum málum,“ útskýrir Eiríkur Örn.

Hann bætir þó við að víða verði þokuloft við strönd landsins, sérstaklega á nóttunni og á morgnana.

Veðurspá er með besta móti út vikuna en svona eru …
Veðurspá er með besta móti út vikuna en svona eru veðurhorfur á sunnudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Hæð yfir Færeyjum að þakka 

Spurður hvaða hitatölum megi búast við í vikunni segir Eiríkur:

„Það má búast við að hámarkshiti á svo gott sem á hverjum degi verði í kringum 20 gráður, plús, mínus. En svo er auðvitað svalara þar sem þokuloft er. Þar verður hitinn frekar í kringum 7-9 gráður.“

Spurður hvað skýri þetta sólríka og hlýja veður á landinu öllu útskýrir Eiríkur að það stafi af hæð yfir Færeyjum.

„Það sem skýrir af hverju þetta gerist núna er að það er hæð suður af landinu sem er að koma sér fyrir yfir Færeyjum. Þegar við fáum svona öflugar hæðir getur veðrið oft verið svona gott í flestum eða öllum landshlutum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert