Iceland orðin dýrasta verslun landsins

Iceland er orðin dýrasta verslun landsins.
Iceland er orðin dýrasta verslun landsins. mbl.is/Hjörtur

Verðlag á dagvöru hækkaði um 0,61% milli mars og apríl samkvæmt dagvöruvísitölu ASÍ. Um er að ræða þriðja mánuðinn í röð þar sem verðlag á matvöru hækkaði um meira en hálft prósent.

Sú verslun sem hækkar mest á milli ára er Iceland, sem tók í apríl fram úr 10-11 sem dýrasta verslun landsins. Verðlag í Iceland hefur hækkað um 11% það sem af er ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verðlagseftirliti ASÍ en þar kemur jafnframt fram að útlit sé fyrir að hækkanirnar séu að dragast saman.

Hækkunina milli mánaða má að mestu rekja til tveggja þátta. Sá fyrri er hækkun á verðlagi innlendra vörumerkja en frá áramótum hefur verð á innlendum vörum hækkað mun hraðar en verðlag erlendra vörumerkja.

Slaknandi verðaðhald hjá Nettó og Kjörbúðinni

Síðari þátturinn er slaknandi verðaðhald hjá Nettó og Kjörbúðinni, sem héldu aftur af verðhækkunum frá miðju síðasta ári en hafa nú hækkað verð frá áramótum.

Í tilkynningu verðlagseftirlitsins segir hins vegar að lækkunin á síðasta ári hjá Nettó og Kjörbúðinni vegi á móti miklum hækkunum í byrjun þessa árs og er árshækkun hjá þessum tveimur keðjum því í lægri kantinum.

Að lokum kemur fram að þótt maímánuður sé ungur séu vísbendingar um að hækkunartakturinn í verslununum með langstærstu markaðshlutdeildina, Bónus og Krónunni, sé að róast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert