Lýsa yfir áhyggjum af stöðu húsnæðismála og verðbólgu

Þungar áhyggjur yfir stöðu á húsnæðismarkaðinum á Íslandi.
Þungar áhyggjur yfir stöðu á húsnæðismarkaðinum á Íslandi. Sigurður Bogi Sævarsson

Þing Samiðnar lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu húsnæðismála og verðbólgu á Íslandi. Áhyggjurnar má rekja til fjárfesta sem hafa keypt stóran hluta nýrra íbúða á undanförnum árum. Þessi þróun hefur valdið talsverðum hækkunum á húsnæðisverði og skert möguleika almennings á húsnæðismarkaði. Samiðn segir þessar hækkanir sérstaklega hafa áhrif á ungt fólk og fjölskyldur.

Samiðn, samband iðnfélaga, skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða sem fyrst til að takmarka kaup fjárfesta á húsnæðismarkaði og tryggja þar með að húsnæði á Íslandi sé fyrst og fremst heimili fólks en ekki fjárfestingartæki.

Samiðn skorar jafnframt á Reykjavíkurborg og sveitastjórnir að haga að sínum sveitarstjórnarmálum með þeim hætti að það stuðli að lækkun húsnæðisverðs ásamt því að auka framboð á smærri íbúðum.

Vilja að fyrirtæki taki ábyrgð sína alvarlega í baráttu gegn verðbólgu

Samiðn lýsir yfir miklum vonbrigðum á þeirri stöðu sem ríkir í húsnæðis- og efnahagsmálum. Samkvæmt bréfi Samiðnar hafa fyrirtæki ekki sýnt nægjanlega ábyrgð og hafa hækkað verð langt umfram tilefni. „Launafólk hefur axlað sína ábyrgð með því að samþykkja hóflegar launahækkanir, en fyrirtæki og sveitarfélög hafa ekki staðið við sín loforð,” segir í yfirlýsingu Samiðnar.

Samiðn krefst þess að atvinnurekendur og sveitarfélög virði það samkomulag sem hefur verið gert. Fyrirtæki skulu taka þátt í að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og hjálpa þannig að draga úr verðbólgu í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka