Önnur nálgun gildir í Árborg: „Fólk vill sérbýli“

Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, segir að í sveitarfélaginu sé skýr eftirspurn eftir sérbýli og að áherslan sé því ekki á einsleita fjölbýlishúsauppbyggingu líkt og í sumum öðrum sveitarfélögum.

Í viðtali í Dagmálum fer Bragi yfir stöðu og viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins. Þar ræddi hann einnig framtíðaruppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Árborg.

Í samanburði við önnur sveitarfélög, þar sem langstærstur hluti nýs íbúðarhúsnæðis verður í fjölbýli – eins og í Reykjavík og Reykjanesbæ þar sem yfir 90% væntanlegrar uppbyggingar verður í fjölbýlishúsum – segir Bragi aðspurður að önnur nálgun gildi í Árborg.

„Við viljum hafa þetta blandaðra. Við finnum það meira hjá okkur að fólk vill sérbýli. Fólk vill komast í raðhús, parhús eða einbýlishús. Þannig það hefur verið mest uppbygging í þannig húsnæði á undanförnum árum. Misstóru auðvitað“ segir Bragi.

Reyna að auka lóðir fyrir einbýlishús og parhús

Hann bendir á að fjölbýlishúsum hafi vissulega fjölgað, en að markmiðið sé að viðhalda jafnvægi í húsnæðisuppbyggingu.

„Við erum frekar að reyna auka núna áfram einbýlishúsalóðir, stærri parhús, þannig að fjölskyldur sem eru að stækka og þurfa að stækka við sig hafi möguleika á því líka,“ segir Bragi. 

Smelltu á hlekk­inn hér að neðan til að nálg­ast viðtalið við Braga Bjarna­son í heild sinni.

Til stendur að fjölga lóðum fyrir einbýlishús og parhús.
Til stendur að fjölga lóðum fyrir einbýlishús og parhús. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert