Rúmur þriðjungur ekki fullnýtt rétt sinn

Sjálfstæður réttur hvors foreldris til fæðingarorlofs er sex mánuðir, með …
Sjálfstæður réttur hvors foreldris til fæðingarorlofs er sex mánuðir, með heimild til þess að framselja sex vikur til hins foreldrisins. Ljósmynd/Colourbox

36,61 prósent þeirra feðra sem sóttu um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á árunum 2020-2022 fullnýttu ekki rétt sinn til fæðingarorlofs.

Þetta kemur fram í svari Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, um ótekið fæðingarorlof.

Sjálfstæður réttur hvers foreldris til fæðingarorlofs er sex mánuðir, með heimild til þess að framselja sex vikur til hins foreldrisins. Foreldrar hafa 24 mánuði til þess að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs.

Færri fullnýta rétt sinn á hverju ári 

3.919 feður áttu rétt á fæðingarorlofi árið 2020 en 1255 þeirra, eða 32 prósent, fullnýttu ekki rétt sinn. Hlutfall þeirra sem ekki fullnýta rétt sinn hefur farið hækkandi með hverju árinu og var árið 2022 komið í 39 prósent.

Ónýttir mánuðir voru árið 2020 1.716 talsins eða 11% af heildarrétti feðra til fæðingarorlofs. Hlutfall ónýttra mánaða helst svipað á milli ára en hlutfallið var 12% árið 2022. 

Ráðherra taldi nauðsynlegt að afmarka svarið sitt við árin 2020-2022 þar sem endanlegar tölur fyrir árin 2023-2024 liggja ekki enn fyrir. Vinnumálastofnun býr aðeins yfir upplýsingum um þá sem sótt hafa um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, því eru ekki til upplýsingar um það hve margir feður nýttu ekki rétt sinn að neinu leyti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert