Samfélagslegur kostnaður umferðaslysa í Múlaþingi á árunum 2019-2023 er áætlaður 15,5 milljarðar, eða tæplega 3,1 milljarður á ári. Vegir í eigu Vegagerðarinnar bera þar mestan kostnað eða um 11,2 milljarða króna.
Þetta kemur fram í skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Múlaþing við gerð fyrstu umferðaöryggisáætlunar sveitarfélagsins.
„Hvert slys er dýrt fyrir samfélagið, en í kostnaði þeirra er ekki einungis eignatjón heldur einnig kostnaður við lögreglu og störf þeirra sem starfa við björgunarstörf, sjúkrahúskostnaður, kostnaður við aðhlynningu og framleiðslutap samfélagsins,“ segir m.a. í skýrslunni.
„Fækkun slysa leiðir til lægri samfélagskostnaðar í framtíðinni sem vegur á móti kostnaði við öryggisaðgerðir,“ segir þar jafnframt.
Fjöldi slysa meðal akandi vegfarenda á árunum 2014-2023 var 1.079. Meirihluti þeirra var án meiðsla og um 222 þeirra voru alvarleg slys/banaslys eða slys með litlum meiðslum. Um fjórðungur slysanna voru innan þéttbýliskjarna Múlaþings.
Bent er á að ef litið er til fimm ára meðaltals fari fjöldi umferðaslysa í sveitarfélaginu fækkandi en alvarleika þeirra virðist fara fjölgandi, einkum slys innan þéttbýlis.
Á tímabilinu 2019-2023 voru 117 umferðaslys innan þéttbýliskjarna Múlaþings þar sem algengast var að ekið var á kyrrstætt ökutæki. Næstalgengast voru einslys akandi vegfarenda eða 25% slysanna þar sem fimm þeirra voru með meiðslum.
Í skýrslu Eflu er bent á að í slíkum tilfellum sé líklegast að um hraðakstur sé að ræða.
Á tímabilinu voru 22 slys meðal óvarinna vegfarenda þar sem flest slysin voru meðal barna á grunnskólaaldri. Í skýrslunni er bent á að auka skuli áherslu á umferðaröryggi óvarða vegfarenda, þar sem sérstök áhersla er lögð á börn og gönguleiðir þeirra til og frá skóla.
Þá er einnig lagt til að setja sérstakt þéttbýlishlið við innkeyrslu í þéttbýlin með það að markmiði að draga úr hraða ökumanna og vekja athygli þeirra á breyttu umhverfi og akstursskilyrðum.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðum þar sem uppsöfnun slysa er meiri en eðlilegt getur talist. Mælt er með að vegirnir verði skoðaðir sérstaklega. Þeir eru allir í umsjá Vegagerðarinnar.
Vegirnir eru eftirfarandi:
Seyðisfjarðavegur milli Fagradagsfoss og Miðhúsaár
Fagradalsvegur við Mjóafjarðarveg
Fagradalsvegur við sveitarfélagsmörk Fjarðabyggðar
Axarvegur og þá sérstaklega gatnamót við Hringveginn í Berufirði
Hringvegurinn við Jökulsá á brú (Skjöldólfsstaði og Áramótasel)