Vill leggja „jómfrúarræður“ af í borgarstjórn

Frá borgarstjórnarfundi í borgarstjórnarsalnum í ráðhúsinu við Tjarnargötu.
Frá borgarstjórnarfundi í borgarstjórnarsalnum í ráðhúsinu við Tjarnargötu. mbl.is/Karítas

„Það skiptir máli hvaða orð við notum í samfélaginu og það skiptir máli hvaða orð við notum þegar við erum að gera hluti sem bera merkingu sem er stærri en við.“

Þetta segir Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, varaborgarfulltrúi Pírata, en hún hefur lagt fram tillögu í forsætisnefnd að breyta orðalagi þegar borgarfulltrúar flytja sína fyrstu ræðu á vettvangi borgarstjórnar og forseti borgarstjórnar segir nokkur orð af því tilefni.

Hefð er fyrir því að vísa til ræðunnar sem jómfrúarræðu. Oktavía segir það gamaldags orðalag og vill að orðalagið sé skoðað og rætt með það fyrir augum að breyta því.

Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, varaborgarfulltrúi Pírata.
Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, varaborgarfulltrúi Pírata. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Píratalegasta nálgunin

„Fyrsta ræða eða kjörræða í borgarstjórn er augnablik. Það að einhver kaus þannig að manneskja stendur og fær að vera í þessari pontu er merkilegt og það er merkilegt að fá að gera slíkt,“ segir Oktavía.

Hán segir það skemmtilega við tungumál að nýyrði skapist á mismunandi hátt, stundum í hefðum eins og í íslensku sem sé stútfull af dönskum orðum sem tekin hafi verið inn og breytt lítillega.

„Það að vera ligeglad í Danmörku á dönsku er ekki það sama og að vera ligeglad á Íslandi – það hefur allt aðra merkingu og það er pínu skemmtilegt.

Nú hef ég bæði lært og tala frekar mörg tungumál og hef áhuga á, ekki bara tungumálinu heldur uppfærslu og nýyrðum, og til að halda íslenskunni á lífi þá finnst mér skemmtilegt að hugsa og pæla í hvernig við bæði getum uppfært, sem er auðvitað mjög Píratalegt, en líka hvernig við getum búið til og notað og verið með tungumál og orðnotkun sem höfðar til sem flestra.“

Oktavía segist fyllilega gera sér grein fyrir hvaðan orðið jómfrúarræða komi og hvaða merkingu það hafi en segir það kannski pínu úrelt því í grunninn fjalli það kannski meira um að gera eitthvað í fyrsta sinn, sem kemur því ekki sérstaklega við að halda ræðu. Til dæmis í fyrsta sinn í borgarstjórn.

Þannig finnst háni skemmtilegt að reyna að skýra betur um hvað sé að ræða og segir að píratalegasta nálgunin sé að taka virkan þátt í að skoða og uppfæra og eiga samtal um hlutina.

Nokkrum tillögum varpað fram

„Það er hvergi kveðið á um að það þurfi að nota eitthvað ákveðið orð en það hefur verið hefð fyrir því að forseti borgarstjórnar, í kjölfar fyrstu ræðu kjörins fulltrúa, segi nokkur orð, og þá hugsaði ég um það hvaða orð myndi kannski betur ná utan um það sem er að gerast.

Þannig hugsaði ég, hver er betri til þess fallin að ræða það en forsætisnefnd, bæði stjórnskipunarlega séð, en líka bara hvernig hlutirnir ganga fyrir sig?“

Hán segir það hafa verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi að tala við samstarfsfélaga sína í þeim flokkum sem sátu annaðhvort sem fulltrúar meiri- eða minnihluta eða sem áheyrnarfulltrúar.

„Það var bara gott spjall, ekki mikið um skoðanaskipti en meira um hvað felst í því að breyta orðalagi, hvernig gerum við það og hvernig breytum við menningu. Svo var nokkrum tillögum varpað fram sem var mjög skemmtilegt líka og það var mjög skemmtilegt hvernig umræðan var ekki flokksbundin.

Við ætlum að ræða þetta betur á næsta fundi okkar og við munum halda vinnudag og kannski verður þetta á dagskrá þar ásamt öðrum hlutum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert