Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna starfslokasamninga sem gerðir hafa verið við 11 skólastjórnendur og aðra stjórnendur á vettvangi skóla- og frístundasviðs borgarinnar nemur tæpum 320 milljónum á hálfu níunda ári, eða á tímabilinu 1. janúar 2015 til og með 15. maí 2024.
Fjárhæðin er uppreiknuð til verðlags þessa árs. Þetta kemur fram í svari skóla- og frístundaráðs við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, þeirra Mörtu Guðjónsdóttur og Helga Áss Grétarssonar.
Þetta gerir 37,6 milljónir að jafnaði á ári, en hæsti starfslokasamningurinn er upp á 45,6 milljónir með launatengdum gjöldum, en hann tekur til 22 mánaða og er jafnframt lengsti samningurinn. Sá stysti er til fimm mánaða, en að jafnaði eru starfslokasamningarnir til 14,5 mánaða. Kostnaður á hvern starfslokasamning var um 29 milljónir að meðaltali.
„Mér var brugðið þegar ég sá þessar fjárhæðir, ég átti ekki von á að þær væru svona háar,“ segir Marta í samtali við Morgunblaðið og nefnir að ekki hafi gengið þrautalaust að fá svar við fyrirspurninni. Hún var lögð fram í ráðinu fyrir tæpu ári og ítrekuð í síðustu viku. Svar barst loks í gær.
„Það er gagnrýnisvert hve langan tíma tók að svara fyrirspurninni. Það á að vera gagnsæi í kerfinu og við sem sitjum í skóla- og frístundaráði berum ábyrgð á skólastarfi í Reykjavík, bæði faglegu starfi og rekstri. Þarna er undirliggjandi vandi, tölurnar sýna það,“ segir Marta og nefnir að kallað verði eftir ítarlegri upplýsingum.
„Þegar ég horfi á þessa upphæð, á sama tíma og ekki er til fjármagn í viðhald í leik- og grunnskólum og leikskólarnir hafa verið vanfjármagnaðir til margra ára, er von að mér sé brugðið,“ segir hún.
Helgi Áss segir að tölurnar gefi stjórnunarvanda til kynna.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.