Rithöfundurinn og skáldið Þórdís Gísladóttir hlaut rétt í þessu ljóðabókaverðlaunin Maístjörnuna fyrir bók sína Aðlögun en athöfnin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni.
Aðspurð segist Þórdís alls ekki hafa átt von á því að vinna.
„Ég var tilnefnd til þessara verðlauna fyrir mörgum árum fyrir bók sem kom út árið 2016 en ég hef hlotið mun fleiri tilnefningar en verðlaun svo þetta kom mér á óvart. Það kom mér líka á óvart að vera tilnefnd því ég verð alltaf jafn hissa þegar verkin mín rata til þeirra sem sjá um að tilnefna,“ segir hún og tekur fram að hún sé bæði auðmjúk og þakklát.
„Lífið er ekki keppni og ekkert okkar vinnur lífið því við deyjum öll. Ég er því fyrst og fremst mjög þakklát að einhver vilji lesa ljóðin mín og að dómnefndin, sem lagðist yfir allar ljóðabækur sem komu út 2024, kunni að meta mína bók.“
Ítarlegt viðtal við Þórdísi birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, fimmtudaginn 15. maí.