Dæmi eru um hér á landi að börn allt niður í 10 ára hafi orðið fyrir kynlífskúgun á samfélagsmiðlum þar sem þau hafa verið krafin um að greiða háar fjárhæðir til að koma í veg fyrir að nektarmyndum af þeim sé dreift. Kynlífskúgun er ekki ný á nálinni hérlendis en á síðustu árum hefur orðið erfiðara að hafa uppi á þeim sem stunda slíka starfsemi.
Þetta segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is en tekur fram að það séu ekki aðeins börn sem verði fyrir kynlífskúgun heldur fólk á öllum aldri og ýmist konur eða karlar.
Hugtakið kynlífskúgun vísar til þess að einstaklingi sé hótað um dreifingu kynferðislegra mynda greiði þeir ekki tiltekna fjárhæð. Þetta fellur undir skipulagða glæpastarfsemi.
Greint var frá því um helgina í breska dagblaðinu The Guardian að hópur drengja, sem kalla sig BM Boys, og gera út frá Nígeríu, hafi herjað á ungmenni upp á síðkastið með þeim tilgangi að hafa af þeim fé. Hópurinn hefur ekki ratað inn á borð lögreglunnar á Íslandi að sögn Bylgju en erlendir hópar sem stunda sömu starfsemi hafa gert það í yfir áratug. Fá eða engin dæmi eru um að gerendur í þessum málum, þar sem reynt er að kúga út fjármuni, séu frá Íslandi.
Starfsemi hópanna fer fram á þann hátt að þeir setja upp prófíl í nafni t.d. ungrar stúlku og senda fólki vinabeiðni á samfélagsmiðlum og byrja að spjalla. „Stúlkan“ sendir svo á einstaklinginn nektarmynd og biður um að hann geri slíkt hið sama. Í kjölfarið fær einstaklingurinn hótun um að myndinni verði dreift á fjölskyldu hans og vini greiði hann ekki uppsetta fjárhæð.
Bylgja segir að framþróun í tækni hafi orðið til þess að hóparnir eiga auðveldara með að fela slóð sína og reynist æ erfiðara að uppi á þeim. Hún segir mál af þessu tagi vera erfið í rannsókn.
Hún segir að það sé frekar tilviljanakennt hverjir verða að skotmarki slíkra glæpahópa. Lýsir Bylgja því að þetta sé starf liðsmanna glæpahópsins sem kasta frá sér neti í von um að einn einstaklingur falli fyrir blekkingunni.
„Það kæmi fólki á óvart hvað það er breiður hópur sem verður fyrir þessu,“ segir Bylgja.
Í umfjöllun The Guardian sé farið yfir hversu skipulögð starfsemi BM Boys er og hve mikil sálræn áhrif það hefur á fólk að verða fyrir kynlífskúgun. Greint var frá því að frá árinu 2021 hafi 46 drengir tekið líf sitt eftir að hafa orðið fyrir kynlífskúgun.
Bylgja tekur undir að það hafi gríðarleg áhrif á fólk að verða fyrir slíku svindli, þó svo að nektarmyndin sjálf fari aldrei í dreifingu, þá sé áfallið að hafa látið glepjast.
„Þetta hefur orðið til þess að fólk hefur þurft að leita sér aðstoðar af því að hugurinn fer á þennan stað, að heimurinn sé hruninn,“ segir Bylgja.
Hún segir að þegar reynt sé að nálgast ungt fólk sé það oftast gert í gegnum tölvuleiki sem bjóða upp á spjallrásir, samskiptin færa sig svo yfir á aðra miðla eins og Snapchat og þar fer kynlífskúgunin fram.
„Ábyrgðin er rosaleg hjá foreldrum að fylgjast með við hverja þau [börnin] eru að spjalla og hvað fer fram á spjallinu. Þar leynast hætturnar,“ segir Bylgja.
Bylgja segir að í fæstum tilfellum sé orðið við hótuninni sé gjaldið ekki greitt, en að það komi þó fyrir. Mælt er með því að greiða ekki fjárhæðina, verði fólk fyrir slíku svindli, annars er hætta á því að fólk verði féflett því hótunin hættir ekki þrátt fyrir greiðslu.