Verslun Nettó í Glæsibæ hefur ekki enn verið opnuð en stefnt var að því að ná að opna hana að nýju í dag. Verslunin var opin í einn dag í lok mars en Samkaup neyddist til þess að loka versluninni að nýju sökum þess að starfsleyfi skorti.
Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs hjá Samkaupum, segir í samtali við mbl.is að ferlinu við það að opna búðina að nýju sé nánast lokið.
„Stefnt var að því að maður kæmi á vegum Reykjavíkurborg og gerði úttekt í dag en það hefur ekki gerst. Það er eitthvað smámál sem er eftir en það er ekkert sem strandar á okkur, við bíðum bara þolinmóð,“ Segir Gunnur.
Verslunin var opnuð eins og áður segir í einn dag í lok mars en neyddist Nettó til þess að loka henni degi síðar sökum þess var að starfsleyfi var ekki talið fullnægjandi.
Samkaup rak aðra verslun í rýminu en með opnun Nettó verslunarinnar var felldur niður milliveggur og rými þar sem áður var rekin matsölustaðurinn Saffran bætt við verslunarrýmið, í því rými var ekki leyfi til þess að reka verslun.
„Við héldum í góðri trú að við værum með starfsleyfi en svo var ekki og því þurftum við að bregðast hratt við svo að við gætum opnað að nýju,“ segir Gunnur.
Verslunin sem Samkaup rak áður í Glæsibæ var Iceland-verslun. Samkaup hefur stefnt að því að loka verslunum Iceland seinustu ár og að sögn Gunnar er stefnan að búið að verði að loka seinustu tveimur verslunum Iceland á þessu ári en nú er starfræktar Iceland-verslanir í Breiðholti og í Hafnarfirði.