Ósátt með fyrirætlanir nýrra eigenda Fríhafnarinnar

Heinem­ann breytti nafni Fríhafnarinnar í „Ísland – Duty Free“.
Heinem­ann breytti nafni Fríhafnarinnar í „Ísland – Duty Free“. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þýska fyr­ir­tækið Heinem­ann, sem tekið hef­ur við rekstri Frí­hafn­ar­inn­ar á Kefla­vík­ur­flug­velli, vill komast undan kjarasamningi Sameykis og skikka félagsfólk til að semja við VR.

„Félagsfólk Sameykis verður ekki skikkað í VR með einhliða ákvörðun Heinemann,“ segir í upplýsingapósti til félaga Sameykis sem Kári Sigurðsson, formaður Sameykis er skrifaður fyrir. 

Er þar vitnað í fund Sameykis við lögmanna Heinemann þann 15. apríl. Þar hafi orðið ljóst að Heinemann vildi komast undan kjarasamningi Sameykis.

„Það hugðist Heinemann gera með því að semja við VR og láta kjarasamning VR og Samtaka atvinnulífsins (SA) gilda um ráðningarkjör starfsmanna Heinemann,“ segir í pósti Sameykis.

Samkvæmt þessu myndi nýráðið starfsfólk starfa samkvæmt kjarasamningi VR og SA.

Samningur fellur úr gildi 1. febrúar 2028

Þau sem áður störfuðu hjá Fríhöfninni ehf. og hafa verið í Sameyki myndu fá að velja um það hvort þau myndu vera áfram félagsfólk Sameykis eða gerast félagsfólk VR.

„Ef félagsfólk Sameykis myndi skipta um stéttarfélag og gerast félagsfólk VR myndu ráðningarkjörin ráðast af kjarasamningi Sameykis út gildistíma kjarasamningsins en samningurinn á að falla úr gildi þann 1. febrúar 2028. Eftir þann tíma myndi kjarasamningur VR og SA gilda um ráðningarkjörin.“

Segja þetta ekki standast lög

Í upplýsingapóstinum er lögð áhersla á að upplýsa félagsfólk um að það að meina starfsfólki aðild að Sameyki standist ekki lög.

Sameyki hefur samið um kjör starfsmanna fríhafnarinnar frá árinu 1958, að því er segir í upplýsingapóstinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert