Vinna er hafin hjá sveitarfélaginu Múlaþingi við að auka öryggi vegfarenda, bæði gangandi og akandi. Áhersla er lögð á að koma á göngustígum á stöðum þar sem það hefur skort og er hluti vinnunnar gerður í samvinnu við Vegagerðina.
Þetta segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitastjórnar Múlaþings, í samtali við mbl.is.
Sveitarfélagið hefur nýlega samþykkt fyrstu umferðaröryggisáætlun sína en verkfræðistofan Efla gerði úttekt á umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Jónína segir að ákveðið hafi verið að ráðast í gerð áætlunarinnar í kjölfar banaslyss sem varð á Djúpavogi sumarið 2022.
Sveitarfélögum er ekki skylt að gera umferðaöryggisáætlanir en markmið þeirra er að auka vitund um umferðaöryggismál meðal forráðamanna sveitarfélaga og almennings.
Í skýrslu Eflu kemur fram að samfélagslegur kostnaður umferðarslysa í Múlaþingi á árunum 2019-2023 er áætlaður 15,5 milljarðar þar sem vegir Vegagerðarinnar bera mestan kostnað. Sömuleiðis er bent á að fjöldi slysa í sveitarfélaginu fari fækkandi en alvarlegum slysum fari fjölgandi, einkum slys innan þéttbýlis.
Líkt og fyrr segir er vinna hafin við að auka umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Jónína segir mörg verkefni sem ráðast þurfi í taka tíma en að samtal sé hafið við Vegagerðina um útfærslu verkefna.
Jónína segir þó að vinna sé hafin á að bæta umferðaröryggi - m.a. er unnið að því að bæta aðgengi að stoppistöðvum strætó, setja upp þéttbýlishlið við innkomu í Seyðisfjörð, koma á göngustíg frá upp að Gufufossi á Seyðisfirði en Jónína segir að nú gangi fólk á akveginum til að komast að fossinum með tilheyrandi slysahættu.
Þá er einnig unnið að því að klára gangstíg frá Fellabæ og að baðstaðnum Vök auk gangstígar meðfram eggjunum í Gleðivík. Þá er einnig unnið að því að gera gangstíg meðfram aðalgötunni á Borgarfirði.
Kostnaðurinn við framkvæmdirnar skiptist á milli Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins, auk þess sem sveitarfélagið hefur fengið styrk frá framkvæmdasjóði ferðamanna fyrir hluta framkvæmdanna. Aðspurð hafði Jónína ekki nákvæmar upplýsingar um hver kostnaður sveitarfélagsins yrði.
Að sögn Jónínu er einnig til skoðunar að lækka hámarkshraða til að draga úr slysahættu á ákveðnum vegum innan sveitarfélagsins. Bæði kemur til greina að draga úr hraða tímabundið eða varanlega en það sé eitthvað sem þurfi að ræða við Vegagerðina.