Enn skelfur Grímsey

Enn einn jarðskjálftinn reið yfir Grímsey skömmu fyrir miðnætti.
Enn einn jarðskjálftinn reið yfir Grímsey skömmu fyrir miðnætti. mbl.is/Anton Guðjónsson

Jarðskjálfti yfir 4 að stærð reið yfir í grennd við Grímsey skömmu fyrir miðnætti. Skjálftinn mælist um 4,3 til 4,4 að stærð að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands en þegar þetta er ritað hefur skjálftinn ekki verið yfirfarinn.

Gera má ráð fyrir að íbúar í Grímsey hafi fundið vel fyrir skjálftanum, og einnig íbúar í byggðum á Norðausturlandi.

Eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið.

Hrina sem hófst með hvelli

Kröftug jarðskjálftahrina stendur yfir við Grímsey og er þetta þriðji skjálftinn sem mælist vel yfir 4 að stærð frá því hrinan hófst með hvelli aðfaranótt þriðjudags. 

Grímsey liggur á þverbrotabelti og eru jarðskjálftar algengir á svæðinu. Þar hafa orðið skjálftar yfir sex að stærð. 

Virknin er að mestu bundin við svæði rétt austan við Grímsey og á skjálftakorti Veðurstofunnar má sjá þyrpinguna vel. 

Kortið sýnir skjálfta sem orðið hafa úti fyrir Norðurlandi undanfarna …
Kortið sýnir skjálfta sem orðið hafa úti fyrir Norðurlandi undanfarna 9 daga. Kort/Veðurstofa Íslands

Kvikuhreyfingar ekki útilokaðar

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, sagði við mbl.is á þriðjudag að ekki væri hægt að útiloka kvikuhreyfingar á þessu svæði.

„Það er ekki bara lárétt hreyfing í öfuga átt hvoru sínu megin við brotið heldur er líka smá gliðnun tengd þessu af því að legan á brotabeltinu er undir horni miðað við rekstefnuna.

Þá rennur þetta hvert samhliða öðru en togast líka aðeins í sundur. Þetta gerist á Reykjanesinu og þetta gerist líka á Tjörnesbrotabeltinu.

Við þessar aðstæður getur kvika alltaf farið á hreyfingu því þá reynir hún að fylla inn í þær sprungur og göt sem hafa opnast. Þannig að við getum aldrei útilokað kvikuhreyfingarnar,“ sagði Þorvaldur.

Kortið sýnir jarðskjálftavirkni síðustu sjö daga í kringum Grímsey. Nokkur …
Kortið sýnir jarðskjálftavirkni síðustu sjö daga í kringum Grímsey. Nokkur fjöldi skjálfta yfir 3 að stærð hafa riðið yfir, og þar af hafa nokkrir verið yfir 4 að stærð. Sá stærsti mældist 5 að stærð. Kort/Map.is

„Djöfulsins óhugnaður“

Íbúar í Grímsey sem mbl.is ræddi við eftir stóran skjálfta á miðvikudagsmorgun sögðu að auðvitað væru einhverjir íbúar smeykir við jarðskjálftahrinuna. Þeir vöknuðu margir hverjir við skjálftann og lýsa því hvernig þeir urðu varir við drunur í húsum sínum. 

„Ég finn fyr­ir öll­um jarðskjálft­um. Mér finnst þetta djöf­uls­ins óhugnaður,“ sagði Gylfi Gunnarsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert