„Hún lagðist bara á hliðina vélin, þetta var mjúkt undirlag sem hún stóð á, sandur, og þetta voru bara mannleg mistök,“ segir Sölvi Steinar Jónsson, eigandi verktakafyrirtækisins Sólgarðs sem fengist hefur við endurgerð hólmans gamalkunna í Tjörninni í Reykjavik undanfarið.
Segir Sölvi af því er smágrafa, er starfsmenn hans beittu við vinnu sína, valt á hliðina, sem betur fór án þess að slys yrðu á fólki eða tjón er heitið gæti á gröfunni.
„Við erum að endurgera hólmann, byrjuðum á því í vetur, núna erum við að hlaða grjóti í kringum hann, en skiptum um jarðveg í vetur. Það er bara verið að útbúa hann þannig að fuglarnir geti verpt á honum. Hleðsla kemur í kringum hann og svo verður gras á honum og tvö eða þrjú tré,“ segir Sölvi Steinar Jónsson hjá Sólgarði sem hefur með höndum það göfuga verk að hleypa hólmanum gamla á Tjörninni í endurnýjun lífdaganna, þessa smávöxnu eyju sem fjöldi Reykvíkinga sér daglega en fæstir hafa stigið fæti á.