Tvær bifreiðar voru kyrrsettar í umfangsmiklum lögregluaðgerðum á Suðurlandsvegi í gær. Ástæða þess að önnur bifreiðin var kyrrsett var sú að bílstjórinn var ekki með fullnægjandi atvinnuréttindi, en hin bifreiðin var kyrrsett vegna brota á reglugerðum um tengingu og drátt ökutækja.
Kristján Ingi Hjörvarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Lögregluaðgerðirnar voru undir stjórn lögreglunnar á Vesturlandi en stöðvaðar voru rútur, vörubílar og önnur atvinnutengd ökutæki til þess að viðhafa eftirlit af ýmsum toga. Lögregluembættin á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu voru lögreglunni á Vesturlandi til aðstoðar.
Eins og áður segir var önnur bifreiðin kyrrsett sökum þess að bílstjóri hennar skorti fullnægjandi atvinnuréttindi.
„Bílstjóri bifreiðarinnar var ekki með réttindi í lagi, hann var ekki með tákntölu 95 í gildi,“ segir Kristján Ingi.
Atvinnubílstjórar sem endurnýja réttindi sín og lokið hafa endurmenntunarnámskeiði fá tákntöluna 95 á ökuskírteini sitt. Tákntalan gildir í öllum ríkjum innan evrópska efnahagssvæðisins.
Kristján segir að aðgerðir eins og þær sem ráðist var í í gær verði að öllum líkindum á dagskrá aftur fljótlega.
Lögreglan stöðvaði allar rútur, vörubíla og atvinnutengd ökutæki sem áttu leið um svæðið þar sem eftirlitið átti sér stað. Ábendingar hafa borist þess efnis að margir bílstjórar hafi þurft að bíða í fleiri klukkustundir eftir því að komast leiða sinna.
„Auðvitað reynum við í öllum okkar aðgerðum að valda sem minnstu raski. Við höfum það alltaf að leiðarljósi“ segir Kristjáns Ingi að lokum aðspurður hvort staðið verði að aðgerðunum á minna íþyngjandi hátt næst.