Kórónuveiruhópsýking kom upp á einni deild Landspítala í lok aprílmánaðar. Alls greindust átta með kórónuveiruna þá vikuna og hefur nú komið í ljós að þá fjölgun megi rekja til hópsýkingar á spítalanum.
Í tilkynningu frá embætti landlæknis segir að hópsýkingin skýri einnig fjölda þeirra sem voru inniliggjandi á spítala með sjúkdóminn.
Af þeim 8 sem greindust með veiruna eru sjö í aldurshópnum 65 ára og eldri.
Það sem af er ári hafa afar fái legið inni á sjúkrahúsi vegna kórónuveirunnar og sumar vikur hafi enginn legið inni með kórónuveirusmit. Í lok apríl lágu fjórir inni með kórónuveiruna.
Á tveggja vikna tímabili, frá 28. apríl til 11. maí, greindust fjórir með kórónuveiruna. Af þessum fjórum sem greindust þessar tvær vikur voru tveir í aldurshópnum 65 ára og eldri og tveir á aldrinum 15-64 ára.