Héraðsdómur hefur dæmt mæðgin og þriðja mann öll í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á samtals 2 kg af kókaíni frá Barselóna á Spáni til Íslands í október í fyrra. Voru efnin með 84-86% styrkleika.
Efnin faldi fólkið bæði í skófatnaði og nærbuxum þegar það kom með flugi 12. október til Keflavíkur.
Heitir sonurinn Daniel Quenguan Guzman en móðir hans Diana Maria Guzman Munoz, en þriðji maðurinn David Martinez Arenas.
Í niðurstöðu héraðsdóms er komist að þeirri niðurstöðu að um samverknað sé að ræða, en mikils ósamræmis gætti í framburði fólksins um aðdraganda og skipulag innflutningsins, sem og hversu mikið þau þekktust fyrir ferðina. Er framburður fólksins sagður um margt ótrúverðugur og „frásögn þeirra með miklum ólíkindablæ.“
Þannig er mismunandi hversu mikið mæðginin sögðust hafa þekkt David og sagði móðirin að manneskja hefði leitað til hennar um að flytja efni til landsins, en hún vissi ekki hversu mikið eða hverskonar efni væri um að ræða. Sagðist hún fyrst ekki hafa sagt syni sínum frá efnunum, en svo gert það síðar þegar hann átti að klæðast sérstökum skóm til að flytja efnin í. Sjálf hafi hún haft efnin í sérstöku dömubindi í nærbuxum sínum. Sagðist hún taka alla ábyrgð á innflutningsins.
Daniel sagði þó fyrir dómi að hann hefði vitað að það væri eitthvað í skónum og að afhenda ætti innihaldið hér á landi. Sögðust mæðginin bæði starfa við ræstingar í Barselóna, en þau áttu að fá greitt nokkur þúsund evrur fyrir innflutninginn.
David sagði ónafngreindan karlmann hafa nálgast sig á einhverjum bar og fengið hann til innflutnings. Hann hafi þó talið að um væri að ræða peninga eða skartgripi, en ekki fíkniefni. Hann sagðist atvinnulaus og hafa þurft peninginn. Við skoðun á síma hans fundust samskipti við nokkra tengiliði, bæði vegna þessa máls og fyrra máls, og kemur fram í dóminum að þar virðist hafa verið um að ræða samskipti vegna fíkniefnainnflutnings.
Fyrir dómi sagðist fólkið lítið hafa þekkst, en engu að síður kom fram að það hafi setið í sömu sætaröð í flugvélinni. Þá fundust skilaboð milli mæðginanna þar sem Diana segir meðal annars að „þessi maður gerir mig taugaóstyrka“ þegar þau voru komin í vélina, en Daniel svarar því til að hún þurfi ekki að hafa áhyggjur.
Er talið hafið yfir skynsamlegan vafa að þau hafi staðið að innflutningi efnanna, sem ætluð voru til söludreifingar hér á landi. Auk þess er þeim gert að greiða rúmlega 2 milljónir á mann í málsvarnarlaun verjenda sinna og 1,2 milljónir saman í annan sakarkostnað.