Rafhlaupahjólin flokkast sem gangandi vegfarendur

Hjólateljararnir telja rafmagnshlaupahjól sem gangandi vegfarendur vegna þess að það …
Hjólateljararnir telja rafmagnshlaupahjól sem gangandi vegfarendur vegna þess að það er svo stutt á milli dekkjanna, að sögn Katrínar Halldórsdóttur, forstöðumanns hjóla- og göngustíga hjá Betri samgöngum. mbl.is/Hari

Hjólateljarar á höfuðborgarsvæðinu telja þá sem ferðast á rafmagnshlaupahjólum sem gangandi vegfarendur. Líklega eru mun fleiri sem ferðast um með virkum ferðamátum heldur en gögn segja til um.

„Búnaðurinn telur rafmagnshlaupahjól sem gangandi vegfarendur, vegna þess að það er svo stutt á milli dekkjanna, þetta eru eins og skref,“ segir Katrín Halldórsdóttir, forstöðumaður hjóla- og göngustíga hjá Betri samgöngum.

Segir hún að við Sólfarið á Sæbraut standi til að setja upp fyrsta hjólateljarann sem telji rafmagnshlaupahjól.

Tæplega 30 teljarar eru á höfuðborgarsvæðinu og svo eru nokkrir færanlegir til viðbótar, að sögn Katrínar. Samkvæmt gögnum frá teljurunum hefur umferð hjólandi aukist jafnt og þétt, sérstaklega á vorin og haustin. 

„Þessar tölur eru sennilega mun hærri, því auðvitað ættum við að telja rafmagnshlaupahjólin með í þessum gögnum,“ segir Katrín, í samtali við mbl.is.

Katrín Halldórsdóttir, forstöðumaður hjóla- og göngustíga hjá Betri samgöngum.
Katrín Halldórsdóttir, forstöðumaður hjóla- og göngustíga hjá Betri samgöngum. Ljósmynd/Aðsend

Fleiri hjóla á vorin og haustin

Útskýrir hún að fyrir einhverjum árum mældust miklir toppar í hjólreiðum yfir sumarmánuðina á móti minni notkun á hjólum á vorin, haustin og veturna. Þróunin hefur verið í þá áttina að fleiri hjóli allan ársins hring miðað við þá sem hjóla nær eingöngu á sumrin.

„Það hefur ekkert dregið úr sumarhjólreiðum, þeir toppar hafa kannski aðeins verið að standa í stað, en það hefur verið rosalega mikil aukning, sérstaklega á haustin og vorin,“ segir Katrín. Einnig hafi verið töluverð aukning á veturna.

„Maður spyr sig hvort að rafmagnshjólin séu ekki að koma svolítið sterk inn,“ segir Katrín og bendir á að vetrarhjólreiðar verði miklu auðveldari á rafmagnshjólum. Þau hjálpi til við að vega upp á móti veðri og færð.

Talning á hjólandi á höfuðborgarsvæðinu. Grafið birtist með aðsendri grein …
Talning á hjólandi á höfuðborgarsvæðinu. Grafið birtist með aðsendri grein Katrínar í Morgunblaðinu í dag. Graf/Morgunblaðið

Svipuð hegðun í umferð hjólandi og akandi

Katrín segir að á teljurunum megi einnig sjá hvenær dags fólk hjóli og megi þá sjá svipaða hegðun og í umferð bifreiða.

„Það eru toppar á morgnana og síðdegis, sem segir líka til um það að þetta er fólk sem er væntanlega að hjóla til og frá vinnu eða skóla,“ segir Katrín. Einnig sé jafnari hjólreiðaumferð um helgar, líkt og í bílaumferðinni.

Vegna staðsetningar teljaranna, sem eru helst á stígakerfinu á lengri leiðum, vanti líklega gögn um hjólandi börn, sem gera það nálægt sínu heimili inni í hverfum og eru minna á þessum stofnleiðum.

„Það er alveg ótrúlega stór hluti barna sem notar hjól sem sinn aðalsamgöngumáta,“ segir Katrín og bendir á að það hafi komið fram í ferðavenjukönnun Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert