Fyrirhugað er að reisa fjölbýlishús á sex hæðum á Garðatorgi í Garðabæ. Þá er fyrirhugað að byggja ofan á fremri hluta núverandi byggingar við Garðatorg 1, sem snýr út að torginu.
Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Garðabæjar sem samþykkt hefur að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar um tillögu að breytingu deiliskipulags miðbæjarins.
Á Garðatorgi 1 er nú verslun Bónuss og Hönnunarsafn Íslands, en auk þess tilheyrir afturhluti hússins þessari lóð. Var þar meðal annars Betrunarhúsið á efri hæð forðum daga og Sparisjóðurinn á neðri hæð.
Samkvæmt fundargerðinni er gert ráð fyrir sex hæða fjölbýlishúsi á lóðinni við Garðatorg 1 ásamt m.a. byggingareit ofan á fremri hluta núverandi húss.
Tillagan er unnin að hálfu fasteignafélagsins Heima sem er lóðarhafi Garðatorgs 1.
Þá hefur bæjarráð samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja afgreiðslu skipulagsnefndar um tillögu að deiliskipulagi Móa ásamt skýrslu Eflu um umferðarmál innan svæðisins.
Gerir tillagan ráð fyrir að götunni Hrísmóum verði lokað framan við hús númer 13 að vestanverðu og framan við hús númer 3 að austanverðu. Þá komi ný tenging frá Bæjarbraut norðan við Garðatorg 2 og þar yrði aðkoma að Miðbæ og að Hrísmóum 1, 6, 8 og 10.
Skipulagsnefnd hefur vísað tillögunum tveimur til forkynningar í samræmi við skipulagslög. Stefnt er að því að halda almennan kynningarfund í þessum mánuði.
Skipulagsnefnd hefur þá falið umhverfissviði og skipulagsráðgjöfum að útfæra vöruaðkomu norðan við Garðatorg 1 með ítarlegri hætti en tillagan gerir ráð fyrir og með áherslu á öryggi vegfarenda.