Yfirhershöfðingi NATO á Íslandi

Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, Erin Sawyer, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna …
Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, Erin Sawyer, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og samráðshópur þingmanna um mótun stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins (SACEUR) sem jafnframt er yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu, heimsótti Ísland í vikunni.

Cavoli fundaði með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra sem gerði grein fyrir aukinni áherslu íslenskra stjórnvalda á öryggis- og varnarmál og yfirstandandi stefnumótunarvinnu.

Þá voru horfur í öryggismálum og varnarviðbúnaður bandalagsins einnig til umræðu á fundinum.

Kynnti sér aðstæður í Keflavík

„Það var afar kærkomið að fá Cavoli hershöfðingja til Íslands á þessum tímapunkti, einmitt þegar vinna við að móta stefnu Íslands í varnarmálum stendur yfir,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu í fréttatilkynningu.

„Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á aðstæðum á Norður-Atlantshafi og nýtist okkur vel.“

Cavoli kynnti sér einnig aðstæður á öryggissvæðinu í Keflavík og fundaði með samráðshópi þingmanna um mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum Íslands og skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert