#77. - Ár í kosningar: Baráttan er byrjuð

Í dag er slétt ár þar til Íslendingar ganga að kjörborðinu og kjósa til 62 sveitarstjórna. Víða stefnir í harðan slag og ljóst að margir þurfa að verja vígið og enn aðrir sem stefna á að ná völdum.

Þetta er meðal þess sem farið er yfir á vettvangi Spursmála þennan föstudaginn þegar blaðamennirnir Andrés Magnússon og Hermann Nökkvi Gunnarsson mæta til leiks og fara yfir kosningabaráttuna framundan. Það má segja að Spursmál ræsi kapphlaupið um meirihlutann í sveitarfélögunum landið um kring.

Þátturinn var sýndur hér á mbl.is fyrr í dag en upptöku af honum má nálgast í meðfylgjandi myndbandsspilara, á Spotify og/eða YouTube og er hún öllum aðgengileg.

Verðlag hækkar og hvað með kjarasamningana?

Halla Gunnarsdóttir, sem kjörin var formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins í vor, mætir á vettvang og fer meðal annars yfir þær áhyggjur sem nú hrannast upp vegna hækkandi verðlags. Hún verður spurð að því hvort hætt sé við að risasamningarnir sem undirritaðir voru í fyrra, með miklum kostnaði fyrir ríkissjóð og fyrirtækin í landinu, sé í hættu en í september næstkomandi fer sérstök forsendunefnd yfir það hvort ákvæði samningsins haldi.

Réttindi borgaranna fyrir borð borin?

Frosti Logason mætir ásamt Höllu en hann birti í vikunni kynngimagnað viðtal við Jón Óttar Ólafsson, sem verið hefur milli tannanna á fólki síðustu vikur vegna njósnafyrirtækisins PPP. Frosti hefur sterkar skoðanir á störfum sérstaks saksóknara og það verður fróðlegt að heyra hvað hann hefur að segja um næstu skref sem taka verður til þess að leiða þetta stóra mál til lykta.

Lækkar Seðlabankinn vexti eður ei?

Sérfræðingar Íslandsbanka, sem loks verður einkavæddur að fullu í næstu viku, telja að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda stýrivöxtum óbreyttum að sinni en nefndin kynnir niðurstöðu maraþonfunda sinna á miðvikudagsmorgun í næstu viku. Meginvextir bankans eru 7,75% og þykir flestum nóg um - ekki síst verkalýðshreyfingunni.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka fer yfir þetta mat og hvernig horfurnar í hagkerfinu eru almennt. Það gerir hann ásamt Marinó Erni Tryggvasyni, fyrrverandi forstjóra Kviku banka. Hann vonast til þess að Seðlabankinn stígi varfærið skref í átt til vaxtalækkunar. Þar horfir hann til fjármálastöðugleika sem taka verði tillit til, 12-24 mánuði fram í tímann.

Sneisafullur þáttur af áhugaverðri umræðu um landsins gagn og nauðsynjar. Fylgstu með Spursmálum hér á mbl.is alla föstudaga klukkan 14.

Andrés Magnússon, Hermann Nökkvi Gunnarsson, Jón Bjarki Bentsson, Marinó Örn …
Andrés Magnússon, Hermann Nökkvi Gunnarsson, Jón Bjarki Bentsson, Marinó Örn Tryggvason, Frosti Logason og Halla Gunnarsdóttir eru gestir í nýjasta þætti Spursmála. Samsett mynd/mbl.is/María Matthíasdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert