„Nú er búið að vera þurrt og hlýnandi veður og góð helgi fram undan, þannig að við erum í raun bara að biðja fólk að fara varlega,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og í skjóli þeirrar stöðu sjálfkrafa formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.
Tilefni spjallsins er að nefndin vekur athygli á því á skiltum, svo sem á tveimur stöðum við Vífilsstaðavatn í Heiðmörk, að hætta á gróðureldum aukist með hlýnandi veðri, en á þetta bendir Garðabær á heimasíðu sinni. „Förum varlega og höfum í huga að fyrstu viðbrögð við gróðureldum er[u] að hringja í 112 og láta vita af staðsetningu,“ er meðal þess sem fram kemur á skiltum nefndarinnar.
Slökkviliðsstjóri segir enga ástæðu til að lýsa yfir óvissustigi af nokkru tagi, nefndin biðji fólk eingöngu að vera meðvitað um hættuna og fara varlega með eld í námunda við gróður. „Það er einna helst grillið sem margir eru nú að draga fram,“ segir hann og nefnir sérstaklega að Veðurstofa Íslands hafi sent frá sér hættuspá fyrir Austurland.
Finnst þér landinn orðinn meðvitaðri um þessi mál núna í kjölfar áratuga fræðslu og ábendinga? Maður hefur nú setið þau nokkur brunavarnanámskeiðin hjá þér á ýmsum vinnustöðum.
„Já, manni finnst fólk vera orðið meðvitaðra um þetta og fara varlegar, eins og það blasir við okkur, við höfum lent í slæmum gróðureldum víða á landinu sem sumir hverjir hafa verið raktir til þess að fólk hafi bara farið óvarlega án þess að nokkur vilji hafi verið þar að baki,“ svarar Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri og klykkir út með því að fólk fari varlega inn í helgina sem sé ekta grillhelgi og með fyrstu helgum vorsins.
„Það eru stóru skilaboðin,“ segir hann.