Þótt að mörgum geti þótt gott að liggja sólbaði á blíðviðrisdögum líkt og þeim sem einkennt hafa veðráttuna á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga er mikilvægt að vera meðvitaður um hætturnar sem því fylgir.
Þekkt er að húðbruni eykur líkur á húðkrabbameini síðar á ævinni og vilja Geislavarnir ríkisins því hvetja fólk til að huga að sólarvörnum og þá sérstaklega hjá börnum sem eru mun viðkvæmari fyrir útfjólubláum geislum sólar en fullorðnir.
Á vef Geislavarna ríkisins er að finna viðmið yfir ásættanlegt magn útfjólublás ljóss, en þar er haldið utan um rauntímamælingar á svokkölluðum UV stuðli.
Ef UV stuðullinn er 3 eða hærri er ráðlagt að verja sig fyrir sólinni, t.d. með flíkum, sólgleraugum, með því að vera í skugga, nota sólarvörn og/eða takmarka útiveru á tímum sem sólin er sterkust. Síðastliðna viku hefur UV stuðullinn hæst náð 4 þegar sólin hefur verið sterkust.
Frekari upplýsingar og fræðslu má nálgast á vef geislavarna:
https://island.is/s/geislavarnir-rikisins