Brynjar dæmdur í þriggja ára fangelsi: Einbeittur ásetningur

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Brynjar Joensen Creed í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 15 barnungum stúlkum. Þetta er annar dómurinn sem Brynjar hlýtur á rúmlega ári, en í fyrra fékk hann sjö ára dóm, einnig fyrir kynferðisbrot gegn ungum stúlkum.

Héraðsdómur segir að brot Brynjars hafi verið fjölmörg og gróf. Jafnframt að háttsemi hans hafi verið til þess fallin að valda stúlkunum verulegum andlegum miska sem ætla megi að marki þær til framtíðar. En hann var enn fremur dæmdur til að greiða stúlkunum tæpar 18 milljónir í miskabætur.

Dómur í málinu féll 12. maí en hann var birtur í dag.

Fram kemur að héraðssaksóknari hafi höfðað málið á hendur Brynjari, sem er á sextugsaldri, með ákæru 11. júlí í fyrra svo var í mörgum liðum. Önnur ákæra var svo gefin út í desember á hendur honum sem var síðan sameinuð í eitt mál.

Viðhafði kynferðislegt tal og sendi grófar myndir og myndskeið á börn

Hann var meðal annars sakaður um að hafa verið í kynferðislegum samskiptum við ungar stúlkur, m.a. á Snapchat. Voru þau allt frá því að viðhafa kynferðislegt tal upp í sendingar á afar grófum myndum og myndskeiðum sem hann sendi stúlkunum sem þá voru barnungar að aldri. Þá var honum jafnframt gefið að sök að hafa hvatt sumar stúlknanna til að senda sér myndir og myndskeið þar sem þeim var gert að framkvæma kynferðislegar athafnir.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að notendanöfn flestra stúlknanna hafi verið með þeim hætti að Brynjari hafi ekki átt að geta dulist að hann stæði þar í samskiptum við börn.

Framburður stúlknanna trúverðugur

Þá er tekið fram að framburður stúlknanna þyki afar trúverðugur og fái auk þess stoð í gögnum máls og var hann lagður til grundvallar við úrlausn málsins. Héraðsdómur taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að Brynjar hefði gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í fyrstu ákærunni.

Þá var Brynjari jafnframt gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa á tilgreindu tímabili haft í vörslum sínum á farsíma sex ljósmyndir sem sýna stúlku á kynferðislegan hátt. Brynjar kvaðst í skýrslutöku hjá lögreglu ekki muna eftir þessu og kannist ekki við myndirnar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að óumdeilt sé að umræddar ljósmyndir hafi verið vistaðar á símtæki Brynjars. Voru myndirnar bornar undir stúlkuna við skýrslutöku fyrir dómi og kvaðst hún þar endurþekkja sjálfa sig á myndunum og kvaðst jafnframt hafa sent þær til Brynjars.

„Framburður brotaþola hefur áður verið metinn trúverðugur, gagnstætt framangreindum sjónarmiðum, sem teflt hefur verið fram af hálfu ákærða. Verður því talið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið II og er hún þar réttilega heimfærð til refsiákvæða,“ segir í dómnum.

Hlaut sjö ára dóm í fyrra

Þá segir að Brynjar hafi með dómi Hæstaréttar frá 31. janúar 2024 verið dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fjölmörg kynferðisbrot gegn ungum stúlkum, þar á meðal var hann þar fundinn sekur um að hafa í þrígang gerst brotlegur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en refsirammi þess ákvæðis er 16 ára fangelsi. Í málinu var Brynjar jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem hann hefur hér gerst brotlegur við, auk sérlaga.

„Líkt og greinir í nefndum dómi Hæstaréttar hefur netnotkun barna og ungmenna aukist til muna á undanförnum árum og nýta þau sér samfélagsmiðla í miklum mæli til samskipta. Auðvelt er að nálgast þá sem nýta sér þá miðla og samskiptaforrit, villa þar á sér heimildir, misnota traust sem verður til í slíkum samskiptum og beita blekkingum til þess að viðhafa refsiverða kynferðislega háttsemi. Þá hefur sú þróun sem orðið hefur með aukinni netnotkun barna og breyttu samskiptamynstri þeirra á milli og við aðra með notkun samskiptaforrita og samfélagsmiðla gert þau berskjölduð gagnvart kynferðislegri háttsemi sem unnt er að drýgja á þessum vettvangi,“ segir í dómi héraðsdóms.

Skeytti engu um hagsmuni stúlknanna

Sem fyrr segir þá er Brynjar á sextugsaldri. Héraðsdómur segir að hann hafi haft algera yfirburðastöðu í aldri og þroska í samskiptum sínum við stúlkurnar, sem hann nýtti sér við framningu brotanna.

„Ákærði skeytti engu um mikilvæga hagsmuni stúlknanna og lét sér í léttu rúmi liggja hvaða afleiðingar brot hans kynnu að hafa á sálarlíf þeirra. Ásetningur ákærða til brotanna var einkar styrkur og einbeittur. Ákærði á sér engar málsbætur.“

Auk þess að vera dæmdur til greiðslu miskabóta þá er Brynjari gert að greiða þóknanir skipaðra réttargæslumanna stúlknanna, eða samtals um 6,2 milljónir kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert